Olískaffið byrjað á ný
Lífið færist í átt að eðlilegu ástandi í Grindavík
Fastur póstur í tilveru nokkurra Grindvíkinga er hið svokallaða Olískaffi en þangað eru menn mættir klukkan hálfátta alla virka morgna og leysa heimsmálin yfir kaffibolla. Eðlilega lagðist þetta af við rýminguna en Olís opnaði á mánudagsmorgun á tilsettum tíma, við mikla kátínu þeirra sem mættu.
Jón Gauti Dagbjartsson er útibússtjóri Olís í Grindavík. „Ég er mikill Grindvíkingur í mér og get ekki beðið eftir að eðlilegt líf byrji aftur í bænum okkar. Ég ákvað að fara til Grindavíkur á laugardaginn og um leið og ég sá hversu langt varnargarðarnir voru komnir fylltist ég öryggistilfinningu og tók fljótlega ákvörðun um að flytja aftur heim. Ég vona að sem flestir Grindvíkingar taki þennan pól í hæðina. Að mér vitandi hefur aldrei verið eldgos undir fótunum á okkur í Grindavík. Ég veit ekki hvort þetta hafi verið kvikugangur undir bænum 10. nóvember og fræðingarnir telja engar líkur á eldgosi í Grindavík, það dugir mér. Ef það er rétt voru aldrei neinar líkur á eldgosi í Grindavík. Ég er nokkuð viss um að það mun aftur gjósa, bara spurning um hvenær og líka hvar eldgosið kemur upp, að öllum líkindum á svipuðum slóðum og síðast. Fyrst varnargarðarnir eru að vera fullbúnir er ekkert að óttast eftir það.
Það var yndislegt að opna Olís í morgun, menn höfðu á orði að það eina sem vantaði væri Dóri frændi [Halldór Einarsson]. Ég vona að hann og hans fjölskylda snúi til baka sem fyrst, ég hlakka mikið til næstu kasínu sem við spilum,“ sagði Gauti að lokum.