Olís á Suðurnesjum fær nýja sendibíla
Hekla í Reykjanesbæ afhenti í gær umboðsaðilum Olís á Suðurnesja nýjar Volkswagen Caddy sendibifreiðar. Þessi tegund sendibifreiða nýtur nú aukinna vinsælda hér á landi. Caddy er núna kominn með hleðsluhurðir báðum megin og tvöfalda afturhurð. Bíllinn er afar vel búinn, hefur aukið flutningsrými sem nemur 300 lítrum, miðað við eldri gerð og er heildarflutningsrými bílsins 3,2 rúmmetrar.
Staðalbúnaður í Volkswagen Caddy er meðal annars ABS hemlalæsivörn með hjálparafli, ASR spólvörn, geislaspilari með útvarpi, rafdrifnar rúðuvindur, fjarstýrðar samlæsingar, hæðarstillingu á bílstjórasæti svo eitthvað sé nefnt. Hægt er að fá Caddy með 1400cc 16 ventla bensínhreyfli og einnig með 2000cc dísilhreyfli.
Á meðfylgjandi mynd má sjá þá Sigmar Eðvarðsson og Steinar Sigtryggsson ásamt Kjartani Steinarssyni umboðsaðila Heklu á Suðurnesjum.