Ólíðandi að barnshafandi konur þurfi að leita til Reykjavíkur
-Fæðingarstofa HSS sú eina á landinu sem lokar í einn mánuð á sumri
„Ég varð mjög hissa þegar ég komst að því að fæðingarstofan á HSS sé sú eina á landinu sem lokar í einn mánuð á sumrin,“ segir Berglind Ásgeirsdóttir, en nýverið fór hún af stað með undirskriftasöfnun þeirra sem óska eftir því að barnshafandi konur á Suðurnesjum hafi aðgang að ljósmóður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja allan sólarhringinn, allan ársins hring. Síðan árið 2013 hefur ljósmæðravaktin á HSS verið lokuð í einn mánuð að sumri þar sem einungis er hægt að sækja mæðravernd. Þær konur sem þurfa frekari þjónustu er gert að leita á Landspítalann í Fossvogi í stað þess að fá þjónustu á HSS, líkt og hina mánuði ársins.
Berglind eignaðist sjálf stúlku á fæðingardeild HSS síðustu Ljósanótt og fann því ekki beint fyrir þessari skerðingu sjálf. Hún hafi þó ákveðið að gera eitthvað í málunum og hafið undirskriftarsöfnun, en nú þegar hafa um það bil 1.500 manns skrifað undir.
„Þetta skapar auðvitað stress og erfiðari upplifun á meðgöngunni. Ljósmæðurnar á HSS sem ég ræddi þetta við lýstu nú ekki mikilli ánægju með þetta fyrirkomulag því þær vilja auðvitað veita heildstæða þjónustu fyrir verðandi foreldra allt árið. Þetta er ólíðandi í svona stóru heilbrigðisumdæmi sem þjónar um 25.000 manns, samkvæmt tölum Hagstofunnar,“ segir Berglind.
Í lögum um heilbrigðisþjónustu segir að heilbrigðisþjónustu skuli veita á viðeigandi þjónustustigi og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Lög séu því brotin þegar barnshafandi konur á Suðurnesjum þurfi að sækja þjónustuna til Reykjavíkur, sem annars er veitt á HSS, vegna lokunar ljósmæðravaktar.
Viðbrögðin við undirskriftasöfnuninni hafa verið góð að sögn Berglindar en með henni vonast hún til þess að ná til sem flestra. „Það er gott að sjá að fólk lætur sig málið varða. Við þurfum að nýta kraft fjöldans til að knýja fram breytingar svo það verði ekki nein sumarlokun á fæðingardeildinni árið 2018. Andrúmsloftið og aðstaðan á fæðingardeild HSS er frábær og það er yndislegt að koma þangað. Ég átti báðar stúlkurnar mínar þar og gæti ekki hugsað mér annað.“
Hægt er að skrifa undir hér.