Olía lak af flutningabíl og lokaði Reykjanesbraut
Fjölmennt lið frá slökkviliði Brunavarna Suðurnesja og lögreglunni á Suðurnesjum var kallað að flutningabíl á Reykjanesbraut á Strandarheiði síðdegis í gær. Flutningabílnum hafði verið ekið yfir belti sem notað er til að festa farm í flutningum.
Beltið kastaðist upp í lagnir og skemmdi þær þannig að olía lak af bílnum, sem er notaður til bílaflutninga og var fulllestaður.
Mikill viðbúnaður var hjá viðbragðsaðilum og var Reykjanesbraut lokað um stund á meðan unnið var að því að tryggja vettvang. Myndaðist löng bílalest á leið til Suðurnesja á meðan brautin var lokuð, en óhappið varð á háannatíma.
Slökkviliðsmenn hreinsuðu upp olíuna með viðeigandi efnum og búnaði. Umferð var einnig hleypt fljótlega á brautina aftur en bílalestin var orðin nokkrir kílómetrar á meðan allt var stopp.
Myndir á vettvangi tók Hilmar Bragi Bárðarson.