Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ólga meðal foreldra í Reykjanesbæ vegna hækkunnar leikskólagjalda
Fimmtudagur 15. janúar 2004 kl. 11:10

Ólga meðal foreldra í Reykjanesbæ vegna hækkunnar leikskólagjalda

Tímagjald á leikskólum Reykjanesbæjar hækkaði um rúm 23% eftir gjaldskrárhækkun sem tók gildi nú um áramót. Fjölskylda með eitt barn á leikskóla í 9 tíma á dag í Reykjanesbæ þarf að greiða tæpum 5 þúsund krónum meira fyrir barnið á hverjum mánuði heldur en fyrir hækkun, en það gerir um 55 þúsund króna hækkun á ári.
Víkurfréttir könnuðu hvernig leikskólagjöldum væri háttað í nágrannasveitarfélögum á Suðurnesjum og kom í ljós að í Sandgerði eru leikskólagjöldin lægst en þar greiða foreldrar rúmar 24 þúsund krónur á mánuði miðað við 9 tíma vistun. Í Gerðahreppi greiða foreldrar tæpar 27 þúsund krónur fyrir eitt barn í 9 tíma vistun og er gjaldið rúmar 27 þúsund krónur í Grindavík. Í Vogum greiða foreldrar 28.600 fyrir barn í 9 tíma vistun og í Reykjanesbæ greiða foreldrar 29.600 fyrir hvert barn.
Öll sveitarfélög á Suðurnesjum hækkuðu gjaldskrá sína um áramótin. Ef miðað er við 9 tíma vistun fyrir eitt barn með fæði þá nam hækkunin í Sandgerði, Vogum og Gerðahreppi um 10% og rúmum 11% í Grindavík. Í Reykjanesbæ nam hækkunin tæpum 19%.
Mikil ólga er meðal foreldra í Reykjanesbæ með hækkun á leikskólagjöldum bæjarins. Fjölmargir aðilar hafa tjáð sig um hækkun gjaldanna á spjallvef Víkurfrétta og látið þung orð falla um hækkunina. Víkurfréttir höfðu samband við starfsmenn leikskóla í Reykjanesbæ sem ekki vildu koma fram undir nafni. „Fólki finnst þetta vera svívirða og að það sé verið að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Það er mikið rætt um hækkun leikskólagjaldanna hér á kaffistofunni hjá okkur og nokkrir foreldrar hafa nú þegar minnkað tíma barnanna sinna hér á leikskólanum,“ sagði einn starfsmaðurinn.
Annar starfsmaður sagði að stefna Reykjanesbæjar væri ekki fjölskylduvæn. „Mér finnst það grátlegt að verið sé að hækka þessi gjöld, sem bitna helst á unga fólkinu sem er að fóta sig í lífinu og koma sér fyrir. Hjá okkur eru nú þegar nokkrir foreldrar sem hafa ákveðið að minnka dvöl barnanna sinna hér á leikskólanum.  Ég bara skil ekki hvernig fjölskyldan á að geta tekið þessa hækkun á sig,“ sagði starfsmaðurinn og segir að fólk sé reitt. „Við veltum því fyrir okkur hvort bara sé verið að horfa í steinsteypu hér í bæjarfélaginu.“
„Við höfum fengið margar hringingar frá reiðum foreldrum sem eru að spyrja út í þessar hækkanir. Það er ótrúlegt hvernig gjöldin hækkuðu og það var enginn undanfari á þessu - gjöldin voru bara hækkuð og enginn látinn vita. Það er þungt hljóð í foreldrum og ég hef mestar áhyggjur af því að þessar hækkanir muni helst bitna á börnunum, því það hafa nokkrir foreldrar ákveðið að stytta tíma barnsins á leikskólanum. Þau hafa einfaldlega ekki efni á því að hafa barnið allan daginn,“ sagði starfsmaður á leikskóla í Reykjanesbæ sem vildi ekki koma fram undir nafni.

VF-tafla: Miðað er við 9 tíma vistun eins barns með morgunverði, hádegisverði og síðdegishressingu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024