Ólafur Örn ráðinn sveitarstjóri í Ölfusi
Ólafur Örn Ólafsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Grindavík hefur verið ráðinn bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Ölfusi. Hann mun gegna starfi bæjarstjóra næstu fjögur ár. Þetta var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Ölfuss þann 29. júlí síðastliðinn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bæjarstjórninni.
Ólafur Örn er fimmtíu og tveggja ára. Hann er kvæntur Ásu Ólafsdóttur og eiga þau saman fjögur börn. Ólafur er menntaður viðskiptafræðingur og starfaði áður sem bæjarstjóri í Grindavík.
Í fréttatilkynningunni segir: Á fundi sínum í dag, 29. júlí 2010 samþykkti bæjarstjórn Ölfuss samhljóða að ráða Ólaf Örn Ólafsson sem bæjarstjóra sveitarfélagsins til næstu fjögurra ára.
Á bæjarstjórnarfundi 18. júní sl. samþykkti bæjarstjórn að fela Capacent að annast ráðningarferli nýs bæjarstjóra. Bæjarráði var falið að fara með vinnslu málsins en bæjarstjórn myndi síðan ráða bæjarstjóra og ganga frá ráðningarsamningi. Alls sóttu 30 aðilar um starf bæjarstjórans í Ölfusi en 3 drógu umsókn sína til baka. Að afloknu hæfnismati Capacent valdi bæjarráð og forseti bæjarstjórnar 6 umsækendur sem kallaðir voru til viðtals. Að viðtölunum komu fulltrúar allra lista. Í kjölfarið voru þrír aðilar taldir hæfastir til að gegna stöðu bæjarstjóra sveitarfélagsins. Ákveðið var þá að ganga til viðræðna við Ólaf Örn Ólafsson og liggur nú fyrir samkomulag þess efnis að hann gegnir stöðu bæjarstjóra sveitarfélagsins til næstu fjögurra ára. Ólafur Örn hefur störf 5. ágúst nk.
Ólafur Örn er 52 ára að aldri, kvæntur Ásu Ólafsdóttur og eiga þau 2 syni og 2 dætur. Hann er viðskiptafræðingur af endurskoðunarsviði. Hann hefur undanfarin ár starfað sem bæjarstjóri í Grindavík, en áður var hann forstöðumaður Eimskip Canada Inc. með aðsetur í St. John´s á Nýfundnalandi.
Bæjarstjórn lýsir yfir mikilli ánægju með ráðningu Ólafs Arnar og væntir mikils af störfum hans í þágu samfélagsins í Ölfusi.
Bæjarstjórn Ölfuss vill þakka öllum umsækjendum fyrir áhuga þeirra á stöðu bæjarstjóra sveitarfélagsins.