Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ökumönnum vísað af lífæð bæjarins í hraðamælingar í íbúðahverfi
Föstudagur 18. júlí 2008 kl. 18:08

Ökumönnum vísað af lífæð bæjarins í hraðamælingar í íbúðahverfi




Ökumenn eru hundfúlir með lokun á umferð um Njarðarbraut í Reykjanesbæ við Nesvelli. Er umferð vísað um hjáleið sem m.a. liggur um götu með 30 km. hámarkshraða. Þar hafa lögreglumenn hreiðrað um sig við hraðamælingar og sekta þá ökumenn óspart sem virða ekki hámarkshraðann. Njarðarbrautin er hins vegar ein af stofnbrautum bæjarins og hefur verið skilgreind sem lífæð Reykjanesbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024





Nokkrir aðilar hafa komið að máli við Víkurfréttir vegna lokunarinnar á Njarðarbraut og fundist gatan vera búin að vera lokuð lengi. Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sagði í samtali við Víkurfréttir að gert hafi verið ráð fyrir því að gatan væri alveg lokuð í hálfan mánuð. Sá tími er að líða. Í næstu viku verður hins vegar opnað á umferð á a.m.k. aðra akreinina.



Ástæða þess að götunni var alveg lokað er að unnið var á miðju götunnar og þá hefur staðið yfir vinna við gangbrautir. Myndin hér að ofan var tekin kl. 16:30 en þá var vinnudegi lokið í dag.





Eins og segir að framan hefur hjáleið vegna framkvæmdanna verið lögð um íbúðahverfi með 30 km. hámarkshraða, en Vallarbraut í Njarðvík er með 30 km. hámarkshraða. Við götuna eru íbúðir eldri borgara og leikskóli. Lögreglan hefur staðið fyrir hraðamælingum í götunni en síðast í dag voru lögreglumenn við mælingar með radarbyssu en lögreglubíll var ekki hafður sýnilegur.



Ökumenn hafa ekki allir áttað sig á því að þeir væru að aka götu með 30 km. hámarkshraða, enda sér Vallarbrautin um allt umferðarflæðið inn í Móa-hverfið í Njarðvík. Myndin hér að ofan var tekin á þriðjudagskvöld og sýnir nokkuð þétta umferð um götuna.





Lögreglan á Suðurnesjum hefur síðan á mánudag tekið 29 ökumenn fyrir of hraðan akstur á Vallarbraut og þar af hefur einn verið sviptur ökuréttindum en hann var stöðvaður fyrir akstur á 64 km. hraða. Sektirnar fyrir hraðaksturinn geta líka skipt tugum þúsunda. Á myndinni hér að ofan er verið að skrifa sektir á þrjá bílstjóra samtímis. Myndin var tekin á þriðjudagskvöldið.

Meðfylgjandi hér að neðan er mynd af vef Umferðarstofu sem sýnir muninn á viðurlögum við akstri á 60 km. hraða eða 61 km. hraða þar sem hámarkshraðinn er 30 km. á klukkustund. 60km. hraði er tvöfaldur hámarkshraði á Vallarbraut. Við hraðamælinar notast lögreglan við 3% vikmörk. Einn kílómetri til eða frá getur skipt miklu máli eins og sjá má.




Myndir með þessari frétt eru frá lokun Njarðarbrautar framan við Nesvelli og frá hraðamælingum lögreglunnar á Suðurnesjum á Vallarbraut sl. þriðjudagskvöld.



Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson