Ökumenn hvattir til að sýna aðgát nærri skólum
Nú er skólastarf á Suðurnesjum að hefjast og er mikið af ungu fólki að feta sín fyrstu spor úti í umferðinni. Nú þegar börnum fjölgar í umferðinni eru ökumenn hvattir til að sýna aðgát nærri skólum, leikskólum og frístundaheimilum þar sem margir ungir vegfarendur eru að fóta sig á nýjum slóðum og í nýju umhverfi. Umferðin mun þyngjast í kringum skólana og biðjum við því ökumenn um að sýna sérstaka aðgát í kringum grunn- og leikskóla, segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
„Við munum að sjálfsögðu sinna okkar reglulega eftirliti í kringum skólana og má búast við því að við verðum með reglulegar hraðamælingar í kringum þessa staði í vetur og minnum jafnframt á að hámarkshraði í kringum langflesta skólana er 30 km/klst,“ segir lögreglan jafnframt.
Þá minnir lögreglan alla á sem ætla að hjóla í skólann að vera með hjálm og hvetur alla vegfarendur til að fara varlega.