Ökumaður undir áhrifum fíkniefna með hníf og hnúajárn í bílnum
Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum tók úr umferð í nótt vegna gruns um fíkniefnaakstur reyndist vera með hníf, hnúajárn og lyf í bifreið sinni. Sýnatökur staðfestu neyslu fíkniefna. Sami ökumaður hafði verið tekinn úr umferð í gærmorgun af sömu sökum. Í bifreið hans þá fann lögregla meint fíkniefni.
Annar ökumaður, grunaður um fíkniefnaakstur fyrr í vikunni, reyndist vera með kannabisefni og neyðarblys í bifreið sinni. Hann hafði áður verið sviptur ökuréttindum ævilangt.
Þriðji ökumaðurinn var grunaður um akstur undir áhrifum kannabisefna. Hann var með kannabis í fórum sínum.
Átta ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í vikunni og tveir til viðbótar óku sviptir ökuréttindum.
Fáein umferðaróhöpp voru skráð en engin slys urðu á fólki.