Ökumaður fjórhjóls slasaðist
- annar ökumaður á óskráðu fjórhjóli.
Ökumaður fjórhjóls slasaðist þegar hann missti stjórn á hjólinu á Bláalónsvegi í vikunni með þeim afleiðingum að hann endaði utan vegar. Þar hafnaði hjólið á hraunsteini. Maðurinn kvartaði undan bakverkjum og var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar.
Þá þurfti lögreglan á Suðurnesjum að hafa afskipti af ökumanni sem ók fjórhjóli sínu eftir Reykjanesbraut, því ekkert skráningarnúmer var á hjólinu. Í ljós kom að það var einnig ótryggt. Var ökumanninum tilkynnt að lengra færi hann ekki á farartækinu svo vanbúnu, heldur yrði hann að láta sækja það á kerru.