Ökumaður bifreiðar sýknaður vegna banaslyss
Nítján ára karlmaður var í morgun sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness vegna ákæru um að vera valdur að banaslysi með ógætilegum akstri sem varð á Reykjanesbraut við Grindavíkurafleggjara 24. september í fyrra.
Áreksturinn varð með þeim hætti að ökumaðurinn sem sýknaður var ók vestur Reykjanesbraut og missti stjórn á bifreið sinni skammt austan við gatnamótin við Grindavíkurveg. Bifreiðin fór hægra megin út af akreininni á vegöxlina, rakst á ljósastaur og kastaðist yfir á bifreið sem ekið var á akreininni á móti með þeim afleiðingum að ökumaður þeirrar bifreiðar lést.
Í dómnum kemur fram að ekki sé loku fyrir það skotið að bilun hafi orðið í bifreið ákærða skömmu fyrir áreksturinn. Þá sé heldur ekki útilokað að hjólbarði bifreiðarinnar hafi sprungið fyrir áreksturinn og rekja megi slysið að einhverju leyti til þess. Álit dómsins er að það sé óupplýst hvers vegna ákærði hafi misst stjórn á bifreiðinni og það sé ósannað að gáleysi hans sé um að kenna. Ber því að sýkna ákærða af öllum sakargiftum.
Myndin: Frá vettvangi slyssins við Grindavíkurafleggjara þann 24. september í fyrra. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson./flushboth>