Ökukennsla á óskoðuðum tengivagni
Ökuskóli SG, sem hefur kennt meirapróf hér á Suðurnesjum, var staðinn að því nú á dögunum að kenna á vörubifreið með óskoðuðum tengivagni. Þónokkur tími var liðin frá því að færa átti tengivagninn til skoðunar. Meirapróf í dag kostar rúmar 270 þúsund krónur og hafa þó nokkrir sett sig í samband við Víkurfréttir og lýst furðu sinni yfir því að kennslubifreiðar sem þessar séu ekki í standi.
Egill Sigurðsson, kennari hjá Ökuskóla SG, segir málið hafa ósköp eðlilega skýringu. „Hann fékk endurskoðun út af bremsum og fórum við með tengivagninn þess vegna inn á verkstæði og létum setja allt nýtt á hann,“ sagði Egill. „Ég fór síðan með tengivagninn suður og ætlaði að skoða hann hjá Frumherja í Njarðvík en þá var hemlunarprófunarbúnaðurinn bilaður hjá þeim svo það var vonlaust að koma honum í gegnum skoðun,“ sagði Egill.
Egill segir bílinn skoðunarhæfan sem er þvert á við heimildir Víkurfrétta sem herma að tengivagninn hafi verið í skoðun hjá Frumherja og þeir ekki gefið skoðun á hann vegna þess að bremsukerfi vagnsins hafi verið ábótavant.
Vagninn, sem ekki enn hefur farið í skoðun, er nú í Reykjavík og hefur Ökuskóli SG sett pall á vörubifreiðina en Egill segist ætla að tengja vagninn aftur um leið og hann kemur úr skoðun.
Þegar ljósmyndara Víkurfrétta bar að garði þá var tengivagninn á vörubifreiðinni og hún í miðri kennslu.
Myndin: Umrædd vörubifreið með tengivagninum