Ökuferðin endaði ofan í skurði
Ökumaður sem var á ferð eftir Skógarbraut í Reykjanesbæ í vikunni missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún hafnaði á hliðinni ofan í skurði við hlið akbrautarinnar. Önnur bifreið lenti utan vegar á Grindavíkurvegi af sömu ástæðum.
Þá varð árekstur við Stekk og ók sá sem talinn er hafa valdið honum á brott án þess að skeyta um hinn ökumanninn. Þá varð bílvelta á Garðvegi og fór sú bifreið eina og hálfa veltu áður en hún staðnæmdist á hliðinni. Á þeim sama vegi varð einnig umferðaróhapp þegar ökumaður virti ekki biðskyldumerki og ók á aðra bifreið sem ekið var eftir Garðvegi.
Engin alvarleg slys urðu á fólki í þessum óhöppum.