Óku framhjá slysstað!
Eins og Víkurfréttir hafa þegar greint frá þá valt keppnisbifreið í rallýinu sem fór fram á Reykjanesinu í kvöld. Eins alvarlegur atburður og það var í sjálfu sér þá átti enn alvarlegra atvik sér stað þegar keppnisbifreið af gerðinni Peugeot ók framhjá slysinu.
Ökumaður þeirrar bifreiðar hefur þurft að keyra varlega framhjá slysinu því bíllinn sem valt lá á miðjum veginum. Ökumennirnir Hlöðver Baldursson og Halldór Jónsson hunsuðu Guðmund Guðmundsson, ökumann Subaru bifreiðarinnar, er hann stóð úti á vegi og veifaði eftir hjálp. Peugeot bifreiðin hélt áfram keppnisleið sinni til Grindavíkur og tilkynnti ekki slysið fyrr en þangað var komið, um það bil 10 mínútum síðar. Það var eftirfarinn sem kom fyrstur á slysstað en eftirfari er bifreiðin sem ekur á eftir keppendum. Þetta ótrúlega atvik er mjög umdeilt en það er vítavert að aka framhjá slysstað ánþess að veita hjálparhönd.
Þetta atvik mun án efa verða skoðað af lögreglu og aðstandendum keppninnar.
VF-mynd/Atli Már Gylfason