Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Okkur þykir þetta leitt en erum að vinna okkur út úr þessu“
Föstudagur 18. nóvember 2016 kl. 16:35

„Okkur þykir þetta leitt en erum að vinna okkur út úr þessu“

- Í ljós kemur á næstu dögum hvort brunalyktin verði viðvarandi

Súra brunalykt frá kísilveri United Silicon hefur lagt yfir Reykjanesbæ í norðanáttinni undanfarna daga. Byrjað var að vinna kísil úr kvarsi í brennsluofni kísilversins um síðustu helgi og líkt og greint var frá í Víkurfréttum í gær var afsog á reyk úr ofnum og ofnhúsi stillt á lágan styrk því verið var að vinna í síuhúsi fyrir reykhreinsivirkin. Fyrir mistök var styrkur blásara ekki stilltur upp aftur fyrr í í fyrrakvöld og reykur fór að hluta óhreinsaður úr verksmiðjunni, í stað þess að fara í gegnum reykhreinsivirkin. Að sögn Helga Þórhallssonar, forstjóra United Silicon, eru brenndar timburflísar með kvarsinu við kísilframleiðsluna. „Bruna á flísunum fylgir sterk lykt. Það þarf að brenna meira af timbri núna í byrjun en þegar framleiðslan verður komin í fullan gang,“ segir hann.

Helgi hefur starfað við sambærilegar verksmiðjur undanfarin 34 ár og var áður aðstoðarforstjóri hjá kísilverksmiðju Elkem á Grundartanga. Hann kveðst ekki hafa kynnnst því áður að slík lyktarmengun hafi fundist. Aðspurður að því hvort lyktin í Reykjanesbæ í norðanáttinni sé komin til að vera, segir hann það ólíklegt en að það verði að koma í ljós á næstu dögum. „Ástandið ætti að verða orðið eðlilegt í næstu viku og þá sjáum við hvort lyktin verði viðvarandi og hver áhrifin verða. Þetta er mengandi iðnaður í jaðri byggðar og í norðurátt hefur þetta snert vestasta hluta byggðar í Reykjanesbæ,“ segir Helgi en leggur áherslu á að við framleiðsluna sé ítrustu kröfum fylgt. „Okkur þykir þetta leitt en erum að vinna okkur út úr þessu.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Byggingu kísilversins lauk í haust og eins og áður sagði var byrjað að vinna þar kísil um síðustu helgi. Ofninn sem nú er í notkun er fyrsti af fjórum sem áætlað er að rísi á næstu árum. 

Tengdar fréttir: Súr brunalykt úr kísilveri pirrar bæjarbúa í Reykjanesbæ

                         Óhreinsaður reykur úr kísilveri ástæða lyktar