Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

„Okkur gafst ekki ráðrúm til að taka neitt með okkur nema lyfin okkar“
Páll Þorbjörnsson og Fanney Grétarsdóttir við störf í fjöldahjálparstöðinni á Sunnubraut. VF/JPK (allar ljósmyndir voru teknar að fengnu leyfi)
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 13. nóvember 2023 kl. 09:41

„Okkur gafst ekki ráðrúm til að taka neitt með okkur nema lyfin okkar“

„Hjá okkur hafa 24 einstaklingar þegið gistingu en okkur telst til að eitthvað yfir áttatíu manns hafi leitað hingað yfir daginn,“ segir Fanney Grétarsdóttir, deildarstjóri Rauða krossins á Suðurnesjum. „Fólk og fyrirtæki hafa sýnt samhug í verki, boðið upp á mat og aðrar nauðsynjar og það er áberandi hversu þakklátt fólk er.“

Ljósmyndari Víkurfrétta ræddi við nokkra Grindvíkinga sem voru staddir á Sunnubrautinni í hádeginu í gær. Þar var fólk að snæða hádegisverð og bíða eftir frekari upplýsingum frá Almannavörnum um hvort og hvenær það fengi að snúa til síns heima til að sækja persónulegar eigur sínar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Fyrirtæki hafa boðið upp á mat og þegar ljósmyndara bar að garði var matarvagn á staðnum.

„Við fórum bara eins og við erum,“ sögðu hjón sem Víkurfréttir ræddu við. „Okkur gafst ekki ráðrúm til að taka neitt með okkur nema lyfin okkar. Við höfum ekki einu sinni föt til skiptanna.“ Hjónin gista nú í íbúð sonar síns í Reykjanesbæ en sögðu jafnframt að nú þurfi þau bara að bíða og sjá, eins og aðrir Grindvíkingar, hvort og hvenær þau geti snúið til heimilis síns til að sækja persónulegar eigur sínar. Þau eru í algerri óvissu, vita ekki hvort húsið þeirra hafi orðið fyrir skemmdum eða sé í lagi. „Ég sat í hægindastólnum mínum þegar stór skjálfti reið yfir. Ég er viss um að húsið hafi færst til um sextíu sentimetra meðan á því gekk – ekkert hús þolir þannig álag,“ sagði eiginmaðurinn. Skömmu síðar var öllum gert að yfirgefa bæinn og þau sögðu að hamagangurinn hafi verið mikill og þau hafi skynjað að fólk var skelkað.

Fanney og Páll sögðu að margir þeirra sem hafa leitað á fjöldahjálparstöðina séu erlendir borgarar og fyrirtækin sem þeir starfa hjá í Grindavík séu búin að standa sig einstaklega vel við að aðstoða þá eftir fremsta megni. Einhverjir hafa þegar snúið til síns heima og fyrirtækin eru vinna í að finna úrræði fyrir aðra.

Vont að vera bíllaus

Önnur hjón sem þurftu að yfirgefa heimili sitt í flýti á föstudaginn gista á Sunnubrautinni þar sem þau segja að fari ágætlega um þau. Þau eru í sömu stöðu og aðrir, biðstöðu. Þau segja slæmt að vera bíllaus.