Ókindin á grásleppuslóð
Grásleppukarlarnir Baldvin Reyr Gunnarsson og Þorbergur Þór Heiðarsson, sem gera út bátinn Eyjólf Ólafsson GK til grásleppuveiða, fengu óvenjulegan feng í grásleppunetin í vikunni. Þessi hámeri sem var á þriðja metra á lengd kom í grásleppunetin á sex föðmum undan Stafnesi.
Netin voru lögð á sunnudag og þegar þeirra var vitjað á þriðjudag var hámerin dauð í netunum. Þeim félögum brá nokkuð þegar þeir sáu dýrið og eru ekki vissir um það hvort þeir hefðu lagt til atlögu við hámerina ef hún hefði verið á lífi. Kjaftur dýrsins er ófrýnilegur og á meðfylgjandi mynd (að ofan) er engu líkara en ókindin úr myndunum um JAWS reki höfuðið upp. Þarna þorðu þeir félagar að reka fingur í kjaft dýrsins og meira segja smelltu á það kossi. Hvað yrði um dýrið var óvíst á þriðjudag, þegar því var landað í Sandgerðishöfn.
VF-myndir/ Þorgils Jónsson