Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ókeypis ráðgjöf fyrir ungt fólk
Þriðjudagur 6. apríl 2004 kl. 09:38

Ókeypis ráðgjöf fyrir ungt fólk

Opnuð hefur verið móttaka fyrir ungt fólk á aldrinum 13-20 ára á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem veitt er ókeypis ráðgjöf. Hjúkrunarfræðingar og læknar veita ráðgjöf varðandi kynþroska, getnaðarvarnir, kynsjúkdóma, húðvandamál, þunglyndi, kvíða, megrun, offitu, einelti og fleira.


Móttökunni sinna þær Guðrúna Einarsdóttir og Elín Jakobsdóttir, en ráðgefandi læknir móttökunnar er Úlfur Agnarsson. Meginmarkmið móttökunnar er að sögn Elínar að auka aðgengi ungmenna að heilbrigðisþjónustu, að auka þátt forvarna í umhverfi ungmenna og að styrkja þau í því að lifa heilbrigðu lífi. Elín segir að einnig sé leitast eftir því að virkja unga fólkið í að hugsa sjálfstætt um eigin heilbrigði og stuðla að vellíðan ungmenna í umdæminu.


Elín segir að með opnun móttökunnar hafi opnast gott tækifæri til að sinna forvörnum á persónulegum nótum. „Þetta er fólk sem er að vaxa og mótast og þau verða  oft fyrir miklum áhrifum úr umhverfinu sínu varðandi lifnaðarhætti og fleira. Fjölskyldusamfélagið hefur breyst og fjölskyldan er ekki alltaf til staðar fyrir unglinginn. Ungt fólk er að standa á eigin fótum og er oft undir miklu álagi. Stundum þarf það aðstoð við að komast út úr erfiðleikum,“ segir Elín en spurningar um kynlíf eru líka algengar á þessum aldri. „ Á þessu aldursskeiði vakna ýmsar spurningar varðandi kynlíf, getnaðarvarnir, kynsjúkdóma, útlit, þroska og þyngd svo eitthvað sé nefnt. Við viljum hvetja ungt fólk til að koma á staðinn og ræða málin. Við erum með netfang þar sem ungt fólk getur sent okkur tölvupóst, en netfangið er: [email protected].
Móttakan er opinn á Heilsugæslunni einu sinni í viku, á mánudögum milli kl. 17-18. Þjónustan er ungu fólki að kostnaðarlausu og ekki þarf að panta tíma. Fyllsta trúnaðar er gætt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024