Ók utan í bíldekk og velti
Bílvelta varð við Staðarhraun í Grindavík á tíunda tímanum í fyrrakvöld. Lögreglan á Suðurnesjum og sjúkralið fóru á staðinn og þar lá bifreið á hliðinni á miðjum veginum. Tildrög slyssins voru þau að ökumaður bifreiðarinnar ók utan í vinstra afturhjól bifreiðar, sem stóð kyrrstæð og mannlaus úti í vegkanti og missti við það stjórn á bifreið sinni. Ökumaðurinn var í bílbelti og kenndi sér ekki meins eftir bílveltuna.
Þá varð umferðarslys í Sandgerði, þar sem tvær bifreiðar skullu saman á gatnamótum. Ökumaður og farþegi í öðrum bílnum voru ekki í bílbelti og fundu til talsverðra eymsla í höfði og hálsi. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar var í bílbelti og slapp betur. Bifreiðarnar voru báðar óökufærar og voru fjarlægðar með kranabifreið.