Ók undir áhrifum fíkniefnakokteils
Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum handtók í gærkvöld hafði neytt fjögurra tegunda af fíkniefnum að því er sýnatökur bentu til. Hann játaði neyslu fíkniefna við skýrslutöku.
Nokkrir ökumenn til viðbótar voru teknir úr umferð í vikunni vegna gruns um fíkniefnaakstur. Einn þeirra var með meint amfetamín í bifreið sinni, ásamt óþekktu efni og töflum.
Þá handtók lögregla karlmann sem var eftirlýstur og átti að færa fyrir dómara. Hann var með meint fíkniefni í dós sem hann henti frá sér við handtökuna.
Tveir ökumenn sem lögregla hafði afskipti af voru ökuréttindalausir. Annar ók sviptur ökuréttindum og hinn hafði aldrei öðlast þau.
Sjö ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur og nokkuð var um umferðaróhöpp, en engin stórvægileg meiðsl.