Ók sviptur undir áhrifum fíkniefnablöndu
Lögreglan á Suðurnesjum handtók í fyrradag tvo ökumenn vegna gruns um að þeir ækju undir áhrifum fíkniefna. Sá fyrri kvaðst hafa reykt kannabis og staðfestu sýnatökur á lögreglustöð það. Hinn síðari reyndist hafa neytt kannabis, amfetamíns og metamfetamíns, að því er sýnatökur staðfestu. Að auki hafði hann verið sviptur ökuréttindum þar til í maí næstkomandi.
Þá voru tveir ökumenn handteknir vegna ölvunaraksturs. Annar þeirra var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða, en hinn, karlmaður nær þrítugu, hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Loks hafði lögregla afskipti af ökumanni sem ók sviptur ökuréttindum.