Ók ævisviptur að lögreglustöðinni
Lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af tveimur ökumönnum, sem báðir óku réttindalausir. Annar þeirra, karlmaður um þrítugt, taldi sig eiga erindi á lögreglustöðina við Hringbraut. Hann lagði bifreið sinni þar skammt frá og fór fótgangandi á leiðarenda. Ekki var að furða að hann legði gönguferðina á sig því hann hafði verið sviptur ökuréttindum ævilangt með dómi árið 2012. Lögreglumenn gripu svo manninn þegar hann hóf aksturinn aftur eftir erindreksturinn á lögreglustöðinni.
Hinn ökumaðurinn var með útrunnið ökuskírteini. Þá voru tveir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur. Annar ók á 118 kílómetra hraða en hinn á 119, eftir Reykjanesbrautinni þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund.