Ók á steypuklump og valt
Um miðjan dag í gær var fólksbifreið ekið á steinsteypu-klump á Reykjanesbraut þar sem hún liggur um vinnusvæði við gatnamót brautarinnar og Vogavegar. Við áreksturinn valt bifreiðin og endaði þversum á veginum. Ökumaðurinn, 19 ára piltur, var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar en slapp með minni háttar áverka. Bifreiðin var gjörónýt eftir óhappið og var færð af vettvangi með dráttarbifreið.