Ók á ofsahraða fram úr lögreglubifreið
Tuttugu ökumenn hafa verið kærðir á undanförnum dögum fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum.
Einn þeirra ók á ofsahraða fram úr lögreglubifreið á Reykjanesbraut. Hann ók á að minnsta kosti 150 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund og viðurkenndi hann brot sitt.
Einn hinna tuttugu ökumanna reyndist vera sviptur ökuréttindum ævilangt, var þetta í annað sinn sem lögregla hefur haft afskipti af honum.
Þá hefur lögregla á síðustu dögum fjarlægt skráningarmerki af tíu bifreiðum, þar af sex í fyrrinótt. Bifreiðirnar voru ýmist óskoðaðar eða ótryggðar, sumar hvoru tveggja. Þá var ein þeirra á skráningarmerkjum sem tilheyrðu annarri bifreið.