Ók á ljósastaur
Umferðaróhöpp á Suðurnesjum
Ökumaður sem sofnaði undir stýri á Reykjanesbraut aðfararnótt sunnudagsins vaknaði við vondan draum, því bifreið hans hafnaði á ljósastaur og endaði síðan utan vegar í Kúagerði. Ökumaðurinn var einn í bifreiðinni og slapp hann með skrekkinn. Lögreglan á Suðurnesjum hafði samband við Vegagerðina sem sendi rafvirkja á staðinn, því vírarnir á ljósastaurnum sem ekinn hafði verið niður, stóðu út úr honum.
Þá varð umferðaróhapp á gatnamótum Njarðarbrautar og Vallaráss, þegar bifreið var ekið í veg fyrir aðra. Ökumenn beggja bifreiðanna voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, svo og farþegi sem var í annarri þeirra. Bifreiðarnar voru fjarlægðar af vettvangi með dráttarbifreið.