Óhjákvæmilegt að öll sveitarfélögin á Suðurnesjum sameinist
- verði komin í eina sæng innan 10-20 ára
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar telur óhjákvæmilegt að öll sveitarfélögin á Suðurnesjum verði komin í eina sæng eftir 10-20 ár. Þó sé ólíklegt að Reykjanesbær taki þátt í slíkum viðræðum meðan verið er að ná niður skuldum bæjarins.
Sandgerði og Garður hafa verið að kanna kosti þess að sameina sveitarfélögin. Starfshópur hefur unnið að slíkri könnun og í þessari viku verður tillaga lögð fyrir báðar bæjarstjórnir um skipun formlegrar samstarfsnefndar um sameiningu. Verði tillagan samþykkt þar skilar nefndin tillögum til bæjarstjórnar í haust og þá verður væntanlega kosið um sameiningu tveimur mánuðum eftir það.
Kjartan Már var spurður að því í viðtali á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun hvort Reykjanesbær héldi sig til hlés í slíkum viðræðum meðan skuldastaðan væri jafn slæm. Hann svaraði því í léttum dúr: „Mér skilst að þau vilji ekkert við okkur tala.“
Að hans mati er það óhjákvæmilegt að öll fimm sveitarfélögin vestan Straumsvíkur verði komin í eina sæng innan 10-20 ára. „Það er eina vitið. Ég hef stundum sagt að ef svæðið vestan Straumsvíkur væri eitt sveitarfélag í dag, og það kæmi einhver með hugmynd um að skipta því upp í fimm sveitarfélög þá yrði sá hinn sam eflaust talinn stórskrítinn. Atvinnulega, landfræðilega og með tilliti til samgangna er þetta eina vitið að mínu mati.“
Kjartan Már segir þetta þó ekki gerast strax. Enn séu einhverjir sem halda því fram að það hafi verið rangt að sameina Keflavík, Njarðvík og Hafnir fyrir 20 árum.
Frétt af ruv.is
Hægt er að hlusta á viðtalið á Morgunvaktinni á Sarpinum (Viðtalið hefst á 36 mínútu)