Óhemju mikið álag hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Hvorki til fjármagn né mannskapur fyrir slysadeildina
„Það er rétt, álagið er óhemju mikið alls staðar, sama hvert litið er. Það fer sífellt vaxandi á slysa- og bráðamóttökunni, það er ekki óalgengt að þangað leiti um 100 manns á vöktunum,“ sagði Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
„Við erum með þriðju stærstu slysadeild á landinu og við höfum ekki meiri mannskap í augnablikinu né fjármagn til að manna hana betur. Við höfum þó aukið talsvert við af fólki á síðustu tveimur árum.
Á heilsugæslunni er samfellt álag, biðin er oftast löng í venjulega móttöku. Við getum þó vísað öllu fólki á síðdegisvaktir ef um bráðatilfelli er að ræða, símatíma og hjúkrunarmóttöku eftir því sem við á. Starfsfólki fjölgar ekki frekar hjá okkur en annars staðar. Hér hlaupa allir og reyna að gera sitt besta þó.
Á sjúkradeildunum hefur verið óvenju mikið álag þó flensan sé ekki farin að herja á okkur ennþá. Vonandi sleppum við við hana að mestu. Mikil veikindi bæði á sjúklingum og starfsfólki. Þreyta er farin að gera vart við sig hjá starfsfólki.“
Sigríður sagði að öldrunarþjónustan væri best sett hjá HSS. „Við höfum getað tekið við öllum sem þurfa á öldrunar-/hjúkrunarþjónustu og eru vistunarmetnir.
Til að setja í samhengi þá er ástandið hjá okkur heldur skárra en víða annars staðar en það þýðir ekki að það sé gott. Erfitt að sjá hvert stefnir, við eigum von á sendinefnd úr ráðuneytinu í næstu viku, ekki þó ráðherra,“ sagði Sigríður.