Óheimilt að heimsækja vita ræflalegur til fara
Veturnir voru oft langir og tilbreytingasnauðir á afskekktum vitastöðum líkt og lengi var á Reykjanesvita en vitarnir urðu fljótt vinsælir til heimsókna á sumrin og jafnvel svo að vörðum þótti nóg um. Vitaverðir við Faxaflóavitana kvörtuðu undan því að þeir yrðu fyrir umtalsverðum töfum frá vinnu og hefðu þar að auki „eigi allsjaldan önnur óbeinlínis útgjöld við slíkar gestakomur samkvæmt gamalli íslenskri siðvenju“.
Í Stjórnartíðindum frá 1897 eru birtar reglur um heimsóknir í vita. Þar segir m.a.: „Vitavörður verður að leggja ríkt að við aðkomendur að snerta ekki á nokkrum áhöldum vitans, gæta þess að þeir séu ekki í votum klæðum, taki ekki með sjer göngustafi eða regnhlífar í vitann. Tóbaksreyking er öllum fyrirboðin í vitanum, bæði vitamönnum og öðrum; vitavörður skal biðja menn um að þurka af sjer á gólfmottunum, áður en þeir ganga um vitann, og brýna fyrir þeim að þeir megi ekki hrækja á gólfin, og hundar mega alls ekki koma í vitann. Það er fyrirboðið að leyfa nokkrum ölvuðum manni að ganga í vitann, eða þeim, sem eru ræflalega til fara.“
Í Suðurnesjamagasíni, sem er á dagskrá Hringbrautar og vf.is á fimmtudagskvöld kl. 19:30 er fjallað um áhugaverða sýningu sem sett hefur verið upp við Reykjanesvita af Hollvinasamtökum vitans. Þar er rætt við þá Hall J. Gunnarsson og Eirík P. Jörundsson um sýninguna sem er bæði fróðleg og myndræn. Þar er sögð saga Reykjanesvita en fyrsti viti á Íslandi var reistur árið 1878. Þá er greint frá sjólsysum við Reykjanes og á sýningunni er að finna nöfn um 3500 sjómanna sem fórust við Íslandsstrendur á tuttugustu öldinni.
Í þættinum er einnig farið í draugahús í Reykjanesbæ og á æfingu fyrir óperu um frú Vigdísi Finnbogadóttur.