Óheilsusamlegt andrúmsloft í íþróttahöll
Svifryksmengun í Reykjaneshöll er langt yfir heilsuverndarmörkum samkvæmt niðurstöðum sem mælingar Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja hafa leitt í ljós.
Heilbrigðisyfirvöld hafa ítrekað veitt bæjaryfirvöldum frest til að skila úrbótaáætlun. Síðasti fresturinn til þess rann út í gær en ekki liggur fyrir hvað bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ ætla að gera í málinu. Ljóst er að að skipta þarf um gervigras í Reykjaneshöllinni en kostnaðurinn við það nemur um 25 - 30 milljónum króna. Þann kostnað er ekki að finna á fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar, sem þarf að bera hann.
Magnús Guðjónsson, heilbrigðisfulltrúi, var inntur eftir því hvort Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hygðist grípa til sérstakra aðgerða vegna málsins, t.d. hvort til greina kæmi að loka Reykjaneshöll.
„Það get ég ekki sagt til um. Það er heilbrigðisnefndar að ákveða hvort farið verði í lokunina strax eða hvort gefin verði út aðvörun til t.d. foreldra barna sem eiga við sjúkdóma í öndunarfærum að stríða. En það er alveg augljóst að þetta getur ekki haldið svona áfram,“ sagði Magnús.
Nánar er fjallað um málið í Víkurfréttum í dag.
Mynd: Frá Reykjaneshöll. í gerfigrasinu er gríðalegt magns sands sem veldur svifryksmenguninni.