Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Óháðir aðilar gera úttekt á breyttum leigusamningum
Föstudagur 24. ágúst 2012 kl. 09:29

Óháðir aðilar gera úttekt á breyttum leigusamningum

„Það er okkur mikil vonbrigði að Sjálfstæðismenn í bæjarráði Reykjanesbæjar felldu  tillögu bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar þess efnis að bæjarráð sameinist um óháðan sérfræðing sem gera skyldi úttekt á samningsdrögum þeim er fyrir liggja milli Eignarhaldsfélagsins Fasteignar og Reykjanesbæjar.
Samþykkt tillögunnar hefði tryggt að fjárhagslegar skuldbindingar Reykjanesbæjar sem samningsdrögunum fylgja hefðu verið metnar á faglegan hátt og úttektin í framhaldinu lögð fyrir borgarafund,“ segir í bókun sem bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ lögðu fram í bæjarstjórn Reykjanesbæjar á þriðjudagskvöld.


Þá segir: „Ljóst er að afdrif Eignarhaldsfélagsins Fasteignar mun hafa áhrif á fjárhag bæjarins til langrar framtíðar og því þarf að  vanda vinnubrögðin og tryggja að að íbúar bæjarins séu upplýstir að fullu um málið og gefinn vettvangur og tækifæri til að tjá skoðun sína“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Undir bókunina skrifa Eysteinn Eyjólfsson, Guðný Kristjánsdóttir og Hannes Friðriksson.
Talsverðar umræður urðu í kjölfar bókunarinnar sem meirihlutinn svaraði með eftirfarandi bókun:
„Í tilefni af bókun Samfylkingarinnar og með vísan til bókunar bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins  frá bæjarstjórnarfundi 19/6´12, ítreka bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins það sem þar er bókað að fyrirhugaðir eru kynningarfundir um málið þegar frágangur þess liggur fyrir. Þar er áréttað að til stendur að fá óháða aðila bæði fjármálasérfræðinga og endurskoðendur bæjarins til að fara yfir og gera úttekt á heildar áhrifum breyttra leigusamninga á fjárhag bæjarins“.

Undir bókunina skrifa Gunnar Þórarinsson, Magnea Guðmundsdóttir, Einar Þ. Magnússon, Baldur Þ. Guðmundsson, Björk Þorsteinsdóttir, Árni Sigfússon og Böðvar Jónsson.