Ögmundur staðfestir að hafa ekki verið áhugasamur um hugmyndir Wessmans
„Ég get staðfest að ég var ekki sérstaklega áhugasamur um hugmyndir Róberts Wessman,“ segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra en eins og greint hefur verið frá hér á vf.is var kynningarfundur í síðustu viku um milljarðs framkvæmd við byggingu einkasjúkrahúss á Ásbrú.
Ögmundur segir jafnframt í nýlegum pistli á heimasíðu sinni:
„Róbert Wessman er frumkvöðull og drifkraftur að baki nýju einkavæðingarátaki í heilbrigðisgeiranum. Til stendur að reisa einkasjúkrahús á Suðurnesjum, fyrir 1000 sjúklinga með 300 störfum. Svo er að skilja að fjármögnun komi frá sjóði sem eigi mér og þér tilveru sína að þakka. (Nokkuð sem ég ætla að leyfa mér að grennslast nánar fyrir um því málið kemur mér - og okkur öllum - við sem skattgreiðandum í þessu landi).
Fram kom á fréttamannafundi Róberts Wessman þar sem hann kynnti áform sín að samstarf um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu hafi verið komið vel á veg þegar ég varð heilbrigðisráðherra í febrúar í fyrra. Þá hafi hins vegar allt farið á verri veg hvað einkavæðingaráformin áhrærir.
Þetta get ég staðfest að er rétt.
Vanhugsaðar viðskiptahugmyndir
Ég get líka staðfest að Róbert Wessman kom á minn fund að ræða slík áform. Enn get ég staðfest að ég var ekki sérstaklega áhugasamur um hugmyndir Róberts.
Í fyrsta lagi þótti mér þær um margt vanhugsaðar. þannig var lýst miklum ráðagerðum í tengslum við samstarf við erlenda aðila, samstarfssamningar sagðir á lokastigi um umfangsmiklar fjárfestingar í rannsóknum og rekstri (m.a. við Meyo sjúkrahúsið í Bandaríkjunum) án þess að sannfærandi útfærsla á viðskiptahugmyndinni lægi fyrir. Svo virtist sem aðkoma hins opinbera væri hugsuð sem eins konar hvati í atburðarás á vinnslustigi.
Þá þótti mér ekki ljóst hvernig hugmyndin var að haga samstarfi hins opinbera og einkafyrirtækis þegar fram liðu stundir.“
Hér má sjá pistil Ögmundar.