Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ofurköttur varð fyrir loftárás á húsþaki í Keflavík - myndir
Fimmtudagur 27. maí 2010 kl. 20:30

Ofurköttur varð fyrir loftárás á húsþaki í Keflavík - myndir

Sannkallaður ofurköttur snéri bæði á lögreglu og slökkvilið sem hugðist bjarga honum ofan af húsþaki við Vallargötu í Keflavík nú í kvöld. Kötturinn virðist hafa hæfileika kóngulóarmannsins og gat hlaupið bæði upp og niður húsveggi. Honum var hins vegar ekkert um starra og máva sem gerðu að honum aðsúg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það var á sjöunda tímanum í kvöld sem lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning um að köttur væri fastur uppi á húsþaki við Vallargötu 14 í Keflavík. Það var hins vegar ráðgáta hvernig kisi hafði komist upp á þak hússins sem er hátt og erfitt að ímynda sér uppgönguleið kattarins.

Á þakinu stóð kisi vaktina við inngang að starrahreiðri og hafði greinilega hugsað sér að næla í bráð úr hreiðrinu. Heyra mátti í nágrenninu að starrarnir voru síður en svo sáttir við heimsókn kisu.

Niðri beið lögreglan eftir aðstoð slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja sem kom með körfubíl á staðinn til að komast upp á þakið.

Þegar körfubíllinn kom á staðinn höfðu starrarnir í hverfinu kallað á aðstoð máva og sveimuðu þrír mávar yfir húsinu. Einn þeirra gerði atlögu að kisa og naut aðstoðar starra.

Þegar körfubíll slökkviliðsins stóð traustum fótum og bóman tók að rísa til himins gerði mávurinn hins vegar lokaatlögu að kisa sem brást við með því að hlaupa fram af húsþakinu og hljóp niður eftir húsveggnum og undir nálægan bíl.

Miðað við aðferðina sem kisi notaði til að komast niður af þakinu verður að velta því fyrir sér hvort hann hafi notað sömu aðferð til að komast upp. Tilburðir dýrsins voru yfirnáttúrulegir og sannarlega um ofurkisu að ræða.

Ekki var að sjá að kisa hafi orðið meint af ævintýri dagsins. Eldri kona í hverfinu kallaði til hans og kisi gerði sig líklegan til að ræða við hana málin, en gekk svo í burtu.

Slökkviliðið tók saman sinn búnað og hvarf á braut. Slökkviliðsmaðurinn fékk ekki að ljúka góðverkinu, að koma kisu í sjálfheldu til bjargar. Ofurkisan á Vallargötunni sá um sig sjálf.

Hvort kisa gerir aðra atlögu að starrahreiðrinu síðar í ljósi þess að hún varð fyrir fólskulegri loftárás mávs og starra - það verður tíminn einn að leiða í ljós.


Starrapabbinn alveg stjörnu-snarbrjálfaður. Þarna rétt svo sést í kisa...

... sem síðan mátti þola atlögu frá mávi og lét því vaða fram af þakskegginu. Svo hljóp hann hreinlega niður húsvegginn sem er upp á tvær hæðir.

Eldri kona í hverfinu kallaði á kisu og vildi ræða við hana um ævintýrið á þakinu.

Slökkviliðið tekur saman eftir hjálparbeiðnina nú undir kvöld.

Kisi var uppi á þaki á þessu húsi. Ráðgáta er hvernig kötturinn komst upp á þak og einna helst haldið að hann hafi hlaupið upp útvegg á húsinu.


Gulur bíll ! :)


Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson