OFSAAKSTUR
Tvær bifreiðar og hús skemmdust í Vogunum sl. þriðjudag er tveimur ungum ökumönnum fataðist illilega flugið á Hafnargötunni. Af ummerkjum má ráða að ofsaakstur hafi verið helsta orsökin því bifreiðarnar, sem skullu saman á gatnamótum Hafnargötu og Vogagerðis, hentust á Vogagerði 2 og ullu þar skemmdum. Engin slys urðu á mönnum eða vegfarendum og er það mildi en bifreiðarnar eru ónýtar.