Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Ófögur sjón í Sandgerði
Sunnudagur 26. júní 2005 kl. 14:52

Ófögur sjón í Sandgerði

-Íbúar í Sandgerði kvarta sáran undan frágangi við gamla bræðsluhúsið þar í bæ. Bræðslunni var lokað vorið 2003 og voru húsin seld til Fjárfestingarfélagsins Hamars en þeir eiga meðal annars vélsmiðjuna Hamar í Kópavogi. Mikil slysahætta er á þessu svæði þar sem mikið af ryðguðu járni og öðru hættulegu liggur fyrir fótum dýra og manna.

Davíð Þór Sigurbjartarson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, er að vissu leyti sammála íbúum Sandgerðisbæjar og sagði í samtali við Víkurfréttir að það mætti alveg taka til þarna og gera þetta að vistlegu umhverfi.

„Við erum búnir að vera í miklum framkvæmdum eins og síðastliðið ár þannig að við höfum ekki komist yfir allar þær framkvæmdir sem við ætluðum okkur í,“ sagði Davíð Þór.

Fjárfestingarfélagið Hamar hyggst rífa niður þann hluta húsanna sem er orðin þaklaus í dag en Davíð Þór segir að það verði einhver uppbygging þarna í kringum. „Húsin verða máluð og þrifin og annað slíkt en ég get ekki tímasett það,“ sagði Davíð Þór. Hann vildi ekki láta uppi hvers kyns rekstur verður í húsunum.

Þörungaeldi í tönkunum

Fjárfestingarfélagið Hamar á einnig ómáluðu tankana í Sandgerði en samkvæmt Davíð Þór stendur til að Fræðasetrið í Sandgerði verði með þörungaeldi í tönkunum. „Það er ekki alveg búið að loka því máli en ef það gengur eftir þá verða þeir málaðir og lagaðir en ef ekki þá rífum við þá.“

„Þó það sé stundum pínu drasl í kringum okkur þá erum við ekki algjörir sauðir. Við áttum til að mynda stærri lóð þar á meðal hluta af tjörnunum en við afsöluðum okkur því til bæjarins því okkur fannst þessar tjarnir tilheyra bænum,“ sagði Davíð Þór og bætir því við að þeir hafi verið að reyna að leggja sitt af mörkum til bæjarfélagsins.

Spurður um hvenær vænta má framkvæmda þá sagði Davíð að Hamar væri með alveg nóg á sinni könnu eins og er.

Ekkert heyrt í þessum mönnum.

„Ég hef ekki heyrt í þessum mönnum síðan við óskuðum eftir því að þeir fjarlægðu restina af draslinu og myndu ganga frá svæðinu með tilliti til heilbrigðis- og umhverfismála,“ sagði Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Sandgerði, í samtali við Víkurfréttir. „Við erum orðnir ansi langeygðir eftir að það verði lagað umhverfið, húsin og að tankarnir hverfi.“

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024