Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Öflugt starf hjá Kvennakór Suðurnesja
Laugardagur 29. nóvember 2008 kl. 15:47

Öflugt starf hjá Kvennakór Suðurnesja



Kvennakór Suðurnesja fékk afhenta Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar, á dögunum Mikil gróska hefur verið í starfi kórsins undanfarið, en hann hélt upp á fjörutíu ára afmæli á þessu ári.  Kórinn tók þátt í alþjóðlegri kórakeppni á Ítalíu í október 2007 með frábærum árangri, þar sem kórinn lenti í gullflokki.  Í febrúar voru síðan haldnir glæsilegir afmælistónleikar í sal Íþróttaakademíunnar ásamt Léttsveit Tónlistarskólans í Reykjanesbæ og einsöngvurunum Bjarna Thor og Dagný Jónsdóttur, stjórnanda kórsins.  Kórinn tók þátt í landsmóti kvennakóra sem haldið var á Höfn í Hornafirði í apríl.  Auk þess söng kórinn í Ráðhúsi Reykjavíkur á Menningarnótt 2008 og í Duushúsum á Ljósanótt og við fleiri tækifæri.
 
Síðastliðinn laugardag hélt kórinn árlegan laufabrauðsdag, en þá koma kórkonur saman ásamt fjölskyldum og búa til laufabrauð.  Þetta hefur verið fastur liður í fjáröflun kórsins í mörg ár, og í huga margra líka orðinn fastur liður í jólaundirbúningnum.  Það er alltaf góð stemming þennan dag, börn og fullorðnir eiga góða stund saman, skera út laufabrauðskökur, spjalla og hlusta á tónlist og auðvitað fær jólatónlistin að fljóta með líka.  Laufabrauðin hjá kvennakórnum eru geysilega vinsæl og þykja mjög góð, en steikt voru 1200 laufabrauð og er meirihlutinn af þeim þegar seldur.
 
Sunnudaginn 30. nóvember syngur kórinn við messu í Ytri-Njarðvíkurkirkju, en þar mun kórinn frumflytja jólalag eftir Jón Ásgeirsson í tilefni af áttræðisafmæli hans á árinu.  Gígjan, landssamband kvennakóra, fékk Jón til að semja lag fyrir kóra sambandsins, og munu margir kvennakórar víðsvegar á landinu frumflytja lagið til heiðurs Jóni, flestir þennan dag, 30. nóvember en einnig nokkrir kórar aðra daga.
 
Laugardaginn 13. desember mun kórinn syngja fyrir eldri borgara á Hlévangi og Garðvangi, en kórinn hefur gert töluvert af því í gegnum tíðina að heimsækja eldri borgara á svæðinu og syngja fyrir þá.
 
Sunnudaginn 14. desember tekur kórinn síðan þátt í aðventutónleikum í Keflavíkurkirkju kl. 20.00 ásamt Karlakór Keflavíkur og kór Keflavíkurkirkju.  Kórarnir munu flytja jólalög, bæði sitt í hvoru lagi og saman.
 
Fimmtudaginn 18. desember syngur kórinn á styrktartónleikum í Bláa lóninu.  Tónleikarnir hefjast kl. 20.00.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024