Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Öflugasta gosið til þessa
Frá gosinu við Litla-Hrút í kvöld. VF/mynd: Jón Steinar Sæmundsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 10. júlí 2023 kl. 20:31

Öflugasta gosið til þessa

Vísindamenn eru að störfum við að meta stöðuna á eldgosinu sem hófst við fellið Litla-Hrút á Reykjanesskaga síðdegis í dag og hafa Almannavarnir biðlað til almennings að fara ekki nærri gosupptökum.

Miðað við tvö fyrri gos er útlit fyrir að þetta sé það öflugasta hingað en gossprungan er um 900 metra löng á svæði milli Litla-Hrúts og Keilis. Á Facebook-síðu sinni segir Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Núverandi eldgos byrjar af meiri krafti en hin tvö. Sprungan sýnist verða í a.m.k. þremur hliðruðum hlutum og metin um 900 m löng. Meradalagosið kom í upphafi úr um 300 m langri sprungu en það fyrsta úr 200 m langri. Hraunrennsli er margfalt á við upphaf Geldingadalagossins og mun meira en í Meradölum. Skjáftahrinan í aðdraganda þessa goss var sú mesta, Meradalagosið var framleiðnara í byrjun en Geldingadalagosið og kvikusöfnun varð nokkur eins og fram hefur komið af sk. jarðskjálftaskugga að dæma. Hann varð ljós sl. tvo daga eða svo með því að tilteknar jarðskjálftabylgjur, sem ná illa eða ekki í gegnum fljótandi eða hálffljótandi efni (kviku), vantaði í mæligögn á landsvæði við ganginn. Slík kvikusöfnun gat hafa orðið til þess að kvika náði að brjótast til hliðar út úr kvikufylltu sprungunni á t.d. 1-2 km dýpi á svæðinu milli Litla-Hrúts og Keilis - og myndað lárétt innskot (sillur). Það er þó bara ágiskun af minni hálfu en gæti útskýrt "hikið" í risi kvikunnar í átt að yfirborði.

Núna stefnir í töluvert hraunrennsli, m.a. til suðurs, en óvíst hvort öll sprungan verður áfram virk eða hvort hún lengist (sbr. Geldingadali) - eða, eins og gerðist í Meradölum, gosið dregst saman og lifir lengst um miðbik sprungunnar. Eitt er svo ljóst: Ganga á gosstöðvarnar er 10 km löng hið minnsta - aðra leið en það á eftir að koma fram hvernig skoðunarferðum verður stýrt sem best. Gæta þarf mjög vel að gasmengun!“

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur boðið til upplýsingafundar í Skógarhlíð klukkan tíu í kvöld vegna eldgossins við Litla-Hrút. Fundurinn verður í beinni útsendingu á RÚV, Rás 2 og rúv.is