Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Öflug viðbót við íþróttamannvirkin í Grindavík
Hermann Guðmundsson forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar, Róbert Ragnarsson bæjarstjóri, Sólveig Ólafsdóttir formaður Kvenfélags Grindavíkur, Sigurður Enoksson formaður UMFG og Þorsteinn Gunnarsson sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs en bæjarstjóri o
Fimmtudagur 22. október 2015 kl. 14:01

Öflug viðbót við íþróttamannvirkin í Grindavík

– Skemmtileg vígsluathöfn á nýrri íþróttamiðstöð

Fjöldi fólks mætti við vígslu nýja íþróttamannvirkisins í Grindavík á laugardaginn. Þar var skemmtileg dagskrá frá kl. 15:00 þar sem íþróttamiðstöðin í heild sinni, þ.e. Gjáin, líkamsræktin, sundlaugin, íþróttasalurinn og gamla anddyrið voru nýtt fyrir íþróttaiðkun og allsherjar veisluhöld. Róbert Ragnarsson bæjarstjóri, Sigurður Enoksson formaður UMFG og Sólveig Ólafsdóttir formaður Kvenfélags Grindavíkur klipptu á vígsluborðann í tilefni dagsins. Þá var boðið upp á veitingar í Gjánni fyrir gesti og gangandi, segir í frétt frá Grindavíkurbæ.

Óhætt er að segja að íþróttamannvirkið sé hið glæsilegasta. Fyrsta skóflustungan var tekin 2. október 2013. Vertaki var Grindin ehf. í Grindavík og hönnuðir voru Batteríið og Verkís. Nýbyggingin er Íþróttamiðstöð Grindavíkur og er um 1.730m² að stærð, á einni hæð.



Í meginhlutum er hægt að skipta byggingunni upp í tvo húshluta:

• A - Forsalur með afgreiðslu og starfsmannakjarna, búningsklefar sem þjóna íþróttasal, knattspyrnuvelli og sundlaug ásamt tengigangi að núverandi sundlaugarbyggingu.

• B - Gjáin: Samkomusalur með móttökueldhúsi og skrifstofur sem tengjast íþróttafélögunum og fleira.
Íþróttamiðstöð Grindavíkur er hugsuð sem öflug viðbót við íþróttamannvirkin á svæðinu. Fram kom í máli Róberts Ragnarsson bæjarstjóra að byggingin sé í raun miðstöð eða hjarta sem tengir saman íþróttahús, sundlaug og íþróttasvæði utanhúss. Byggingin er um leið mikilvæg viðbót í æskulýðs- og unglingastarfi bæjarins og aflgjafi fyrir almenna íþróttaiðkun. Íþróttamiðstöðin verður nýtt hjarta íþróttaiðkunar í Grindavík.

Þá er torgið við aðalinngang íþróttamiðstöðvarinnar einnig hið glæsilegasta. Meginmarkmið hönnunar á torginu er að skapa aðlaðandi og fjölnota aðkomu að nýrri íþróttamiðstöð Grindavíkur. Lögð var áhersla á að svæðið væri létt í viðhaldi og aðgengilegt öllum þar sem lagt er upp úr öryggi barna.  Saman brjóta setstallar upp rýmið milli bygginga og mynda óformlega áhorfendastúku þar sem hægt verður að fylgjast með viðburðum á sviði fyrir miðju rýmisins. Minni viðburðir eins og t.d. 17. júní og fleiri hátíðarhöld gætu því verið haldnir þarna í framtíðinni.

Í lokin var svo körfuboltaleikur á milli Grindavíkur og Vals í úrvalsdeild kvenna og í hálfleik var skrifað undir samninga við íþróttahreyfinguna og Kvenfélag Grindavíkur.

Sjá nánar á vef Grindavíkurbæjar.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024