Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Offita er útbreiddur sjúkdómur og leggst misjafnlega á fólk
Janus og Andrea Hauksdóttir frá HSS staðfesta samninginn.
Sunnudagur 7. mars 2021 kl. 06:05

Offita er útbreiddur sjúkdómur og leggst misjafnlega á fólk

Í samningi Dr. Janusar Guðlaugssonar og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er m.a. skrifað undir samstarf á sviði greiningar og þjálfunar einstaklinga sem lifa með offitu. Það felur í sér að þróa meðferðarúrræði fyrir þá. Að verkefninu koma læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, íþrótta- og heilsufræðingar, næringafræðingar og aðrir á sviði heilsu, offitu og velferðar. Verkefnið er skipulagt sem tveggja ára tilraunaverkefni.

„Um fimmtungur fullorðinna búa við offitu af einhverjum toga en þetta er vaxandi heilsufarlegt vandamál í heiminum í dag. Við notum okkar sérfræðinga og okkar hugmyndafræði í skipulagi á þessu ferli með nýjum  fræðsluerindum um offitu og ölllu sem því fylgir. Við verðum einnig í samstarfi við HSS með blóðmælingar og ákveðna ráðgjöf en við tökum að okkur þjálfunina og höldum utan um þá þætti eins og við höfum gert með okkar eldri borgara. Þetta verkefni snýr að öllum aldurshópum,“ segir Janus Guðlaugsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hafa prófað allt

„Við hvetjum fólk sem glímir við offitu  að draga úr kyrrsetu og auka daglega hreyfingu, upplifa hana sem vellíðan og sem part af daglegu lífi. Margir í þeim sporum sem glíma við offitu hafa prófað margar gerðir af líkamsrækt. Við munum taka þetta skref fyrir skref, innleiða daglega hreyfingu, einstaklingunum til góðs og munum styðjast við tveggja ára heilsueflingar verkefni Janusar. Þetta snýst snýst um að bæta almenn lífsgæði, úthald og styrk eftir þessi tvö ár hjá heilsueflingu. Þetta er ekki skyndilausn heldur langtíma- og lífsstílsverkefni. Við stígum þetta skref saman með HSS til að koma að öllum þáttum offitunar. Það þarf að huga að mörgu, næringu, mataræði og svefni. Sjúkdómurinn er mjög breiður og leggst misjafnlega á fólk. Þetta er mjög einstaklingsbundið. Næringarfræðingar, læknar, heilsu- og íþróttafræðingar vinna saman að markmiðinu að gera þessum einstaklingum kleift að lifa betra lífi,“ segir Bára Ólafsdsóttir, íþróttafræðingur hjá Heilsueflingu Janusar.

Markmiðið að bæta líðan fólks

Heilbrigðisráðuneytið samþykkti að styrkja heilsueflandi móttöku 2019 á landsvísu og er það tveggja ára verkefni sem er að hefjast á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hafdís Guðlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur, segir að um sé að ræða heilsueflandi mótttöku fyrir aldraða en einnig heilsueflandi mótttöku fyrir einstaklinga sem lifa við offitu.

Hafdís Guðlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur á HSS:

Markmiðið er að bæta líðan

„Við höfum verið með sykursýkisþjónustu síðan 2001 en þetta er nýtt í boði hjá HSS og við erum spennt fyrir þessari nýjung, bæði í aukinni þjónustu við aldraða og síðan við þá sem glíma við offitu. Móttaka fyrir aldraða er opin á þriðjudögum og fimmtudögum þar sem hjúkrunarfræðingur tekur á móti aðstandendum og fólki 75 ára og eldri og leiðbeinir því með heilsufarslega úrlausnir, líkamlegar og andlegar og þau úrræði sem eru í boði.

Í þjónustu við einstaklinga sem glíma við offitu er í móttöku teymi skipað tveimur hjúkrunarfræðingum, næringarfræðingi og lækni. Okkur vantaði úrræði í hreyfingu og vorum svo lánsöm að hitta á Janus og hans fólk og saman munum við nú bjóða einstaklingum sem lifa við offitu þessa þjónustu.  Hún snýst að miklu leyti um að styrkja fólk til að gera breytingar á sínum lífsstíl. Það er mjög einstaklingsbundið hvenær fólk kemst í þessa stöðu. Margir eru búnir að reyna margt. Þetta er ekki megrunaraðferð heldur lífsstílsbreytingar sem við, með Janusi og hans fólki, hjálpum einstaklingum sem glíma við þennan sjúkdóm að vinna með. Við erum líka með sálfræðing sem aðstoðar okkur í þessu verkefni. Verkefnið gengur út á það að aðstoða fólk við að hætta að þyngjast, að léttast um 5–10% er mikill ávinningur því fylgifiskar offitu eru m.a. hjarta- og æðasjúkdómar og mjög alvarlegar truflanir á lungnastarfsemi og stoðkerfi, kæfi-svefn og ýmislegt fleira. Markmiðið er að bæta líðan einstaklinganna og að fólk nái ákveðinni staðfestu til að lifa góðu lífi.“

Frá heilsueflingu Janusar þegar hún hófst aftur eftir áramót í íþróttaakademíunni.