Ofbeldismaður dæmdur vegna líkamsárásar
Tuttugu og tveggja ára gamall karlmaður í Reykjanesbæ hefur í Héraðsdómi Reykjaness verið dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex skilorðsbundna, fyrir húsbrot og sérstaklega hættulega líkamsárás. Þá var maðurinn jafnframt ákærður fyrir tvenn umferðarlagabrot á síðasta ári þar sem hann var tekinn vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna í Reykjanesbæ. Jafnframt náði kæran yfir hótarnir í garð þess sem varð fyrir líkamsárásinni.
Þann 27. ágúst á síðasta ári ruddist ákærði í heimildaleysi inn á heimili manns við Mávabraut í Reykjanesbæ. Áður hafði hann haft í hótunum við brotaþola vegna skuldar. Ákærði sló manninn ítrekað í höfuðið með þungri skrautbyssu úr járni og tré. Hann lét einnig hnefahöggin dynja á andliti brotaþola með þeim afleiðingum að hann hlaut ýmsa áverka, m.a. brot í botni vinstri augntóftar.
Ákærði hefur á árunum 2004-2006 fjórum sinnum gengist undir lögreglustjórasátt og einu sinni undir viðurlagaákvörðun vegna fíkniefnalagabrota. Hinn 26. september 2007 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, vegna fíkniefnalagabrots. Síðast var ákærði dæmdur til greiðslu sektar og sviptur ökurétti vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna.
Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði hefur að mestu leyti játað háttsemi sína fyrir dómi. Á hinn bóginn er litið til þess að ákærði beitti stórhættulegri aðferð við atlögu sína að brotaþola og þykir ljóst að hún hefði getað haft mun alvarlegri afleiðingar í för með sér en raun varð á. Með vísan til alls framangreinds þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði. Þar sem ákærði hefur ekki áður gerst sekur um hegningarlagabrot þótti rétt að fresta fullnustu sex mánaða af refsingunni og ákveða að hún falli niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð samkvæmt ákvæðum hengingarlaga.
.