Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ófærðin: Margir töfðust á leið til útlanda - video
Fimmtudagur 26. janúar 2012 kl. 14:10

Ófærðin: Margir töfðust á leið til útlanda - video

Allt millilandaflug fór úr skorðum í óveðrinu í morgun en nú um hádegið fóru fyrstu Evrópuvélarnar frá Icelandair í loftið. Hundruð farþega sem komust ekki til síns heima eftir lendinu í Keflavík í gærkvöldi voru í Leifsstöð í nótt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það var fólk hér úti um alla flugstöð, bæði á leið í flug og einnig eftir heimkomu en starfsmenn Icelandair komu með teppi og vatn og færðu fólkinu. Sumir sváfu úti í rútu. Þetta var mjög sérstakt ástand,“ sagði leigubílstjóri í samtali við VF í morgun. Gunnar Olsen, framkvæmdastjóri IGS segir svona lagað afar fátítt en þó hafi allt gengið ágætlega. „Það tekur daginn að vinda ofan af seinkuninni og vonandi gengur það vel. Seinni parts flugið hjá Icelandair ættið að fara í loftið um kl. 21 í kvöld ef allt gengur að óskum,“ sagði Gunnar.

Fjöldi fólks beið í flugstöðinni eftir að komast í flugvélarnar á leið til Evrópu sem áttu að fara samkvæmt áætlun í morgun en fóru í hádeginu. Margir komust ekki fyrr en rétt fyrir hádegi í flugstöðina eftir erfiða og langa ferð. „Við erum búin að vera að síðan snemma í morgun, bíða í Reykjavík og síðan var löng ferð á Reykjaensbrautinni,“ sögðu ungir badmintonspilarar sem komu í flugstöðina um kl. 12.

Jovana Stefánsdóttir, körfuboltakona, dóttir Milans Stefáns Jankovich, aðstoðarþjálfara knattspyrnuliðs Grindavíkur var ein þeirra sem þurfti að bíða eftir að veðri slotaði. „Ég fylgdist vel með fréttum af veðri og svo búum við rétt við Grindavíkurveginn þannig að maður gat séð hvernig staðan var á færðinni. Ég tefst aðeins en það kemur ekki að sök,“ sagði Jovana sem býr með kærasta sínum, Arnóri Gunnarssyni, handboltakappa, í smábæ rétt utan við Stuttgart. Videoviðtal birtist við þau feðgin á vf.is síðar í dag.

Gunnar Olsen, framkvæmdastjóri IGS flugþjónustunnar í flugstöðinni. Á efstu myndinni má sjá þau feðgin, Jovana og Milan S. Jankovic úr Grindavík.

Allt á kafi í snjó við flugstöðina.

Flugfarþegar voru að koma í stöðina alveg fram að hádegi til að ná síðbúnu morgunflugi til áfangastaða í Evrópu.

Starfsmenn Rekunnar voru á fullu við snjómokstur við flugstöðina.

Icelandairvél afísuð fyrir hádegisflugið. VF-myndir/pket og hbb.