Ófærð í efri byggðum - 16 flugferðum aflýst - myndir

Sextán flugferðum til og frá Keflavík hefur verið aflýst í dag, sunnudag vegna óveðurs. Vestan stormur gengur yfir og hviður í allt að 40 m/s, mjög blint og snjókoma og skafrenningur. Sem sagt, mjög vont veður. Appelsínugul viðvörun er fyrir fyrir suðurland, Faxaflóa og höfuðborgarsvæðið. Búist er við meiri snjókomu þegar líður á daginn og því ekki von á því að aðstæður lagist í samgöngum.

Á ferð fréttamanns Víkurfrétta í morgun í Reykjanesbæ mátti sjá að færð er mun erfiðari í efri byggðum bæjarins þar sem ófært er á nokkrum stöðum en í lagi neðar í bænum.

Meðfylgjandi myndir voru teknar fyrir hádegi í efri byggðum og við flugstöðina. Þar voru fáir á ferli en sjá mátti nokkra ferðamenn berjast í óveðrinu.

Mörgum viðburðum hefur verið frestað, m.a. leikjum í Domino's deildinni í körfubolta en Keflvíkingar áttu að mæta Hetti í kvöld í TM höllinni í Keflavík.