Of upptekin við að banna snjallsíma og Facebook
- segir Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri Akurskóla í viðtali í Víkurfréttum.
„Skólar eru í eðli sínu íhaldssamar stofnanir. Stjórnendur og starfsfólk skóla hafa oft ríka tilhneigingu til að vilja ekki vera að breyta, menn vilja halda starfinu í svipuðu fari og það var þegar þeir sjálfir voru í skóla,“ segir Sigurbjörg Róbertsdóttir, nýráðinn skólastjóri Akurskóla í Innri Njarðvík.
Svipað viðhorf er einnig ríkt hjá í samfélaginu, að halda ákveðnum stöðugleika, og þetta stendur oft í vegi fyrir því að skólarnir gangi í takt við breytingarnar í samfélaginu. Einn mikilvægasti þátturinn í þessu er að nýta tækni nútímans betur í skólastarfinu. Það má ekki vera of langt bil milli raunveruleikans hjá barninu og veruleikans í skólanum. Við höfum verið of upptekin að banna tæki sem börnin eru að nota, eins og t.d. snjallsímana og samfélagsmiðla eins og facebook. Við eigum miklu fremur að kenna þeim að nota þessi tæki sér til gagns. Svo þurfum við að vera að endurskoða í sífellu kennsluna sjálfa og starf kennarans, ekki njörva það niður í hólf með tilskipunum í kjarasamningum, heldur treysta skólastjórunum til að stýra skólunum.“
„Að mínu mati erum við með mjög góða skóla hér í Reykjanesbæ, vel stjórnað og með góða og vel menntaða kennara. Og þessi árangur sem við erum að sjá núna er fyrst og fremst að þakka kennurunum sem eru að vinna á gólfinu. Það eru þeir sem eru búnir að ná þessum árangri með börnunum með breyttum kennsluháttum og gera meiri kröfur.“
Ítarlegt viðtal við Sigurbjörgu er að sjá í prentútgáfu Víkurfrétta í dag.