Of Monsters and Men í sjötta sæti á Billboard
Platan My Head Is an Animal með hljómsveitinni Of Monsters and Men fór beint í sjötta sæti bandaríska Billboard-listans, en listi sem nær yfir plötusölu í síðustu viku var birtur síðdegis í gær. Frá þessu er greint á visir.is. Þetta er besti árangur sem íslensk hljómsveit hefur náð á listanum, sem hefur haldið utan um plötusölu í Bandaríkjunum frá árinu 1945.
My Head Is an Animal kom út í Bandaríkjunum í síðustu viku og hefur selst í meira en 55 þúsund eintökum, eins og Fréttablaðið greindi frá í gær. Rappkvendið Nicki Minaj náði efsta sæti Billboard-listans með plötu sinni Pink Friday: Roman Reloaded, en hún seldist í 253.000 eintökum.
Engin íslensk hljómsveit hefur komist svo ofarlega á Billboard-listann. Björk Guðmundsdóttir náði níunda sæti með plötunni Volta, sem kom út árið 2007, en það var besti árangur hennar á listanum. Hljómsveitin Sigur Rós náði besta árangri sínum á Billboard ári síðar þegar platan Með suð í eyrum við spilum endalaust náði 15. sæti. Þá er forvitnilegt að skoða árangur plötunnar Debut með Björk sem náði hæst 61. sæti á Billboard. Ágætis byrjun með Sigur Rós komst ekki inn á listann, segir í fréttinni á visir.is.