Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 8. september 2003 kl. 18:28

Of mikið bar á ölvun unglinga

Helgin var viðburðarík hjá lögreglunni í Keflavík, enda Ljósanótt og fjölmargir í bænum til að njóta þess sem boðið var uppá. Í dagbók lögreglunnar er greint frá því hvernig helgin gekk fyrir sig hjá lögreglumönnum yfir Ljósanæturhelgina.
Föstudagurinn 5. september 2003
Skömmu eftir klukkan átta í morgun setti lögregla gjaldseðla á fimm bifreiðar þar sem þeim var illa lagt skammt frá Fjölbrautarskóla Suðurnesja.
Í dag hafði lögregla afskipti af ökumanni í Keflavík þar sem hann virti ekki stöðvunarskyldu.
Ein bifreið var boðuð í skoðun vegna vanrækslu á aðalskoðun.
Um klukkan 16:00 varð umferðaróhapp á Njarðarbraut þar sem bifreið var ekið aftan á aðra bifreið sem beið við gangbraut, ekki varð slys á fólki.
Kl. 19.00 var tilkynnt að stolið hafi verið hægra stefnuljósi af Mercedes Bens bifreið.
Kl. 19.15 höfðu lögr.m. afskipti af tveimur ölvuðum mönnum á Ránni en annar þeirra hafði sparkað í borð þar inni og einnig teygt sig inn yfir barborð og reynt að taka þar eina flösku að sögn veitingamannsins.
Eftir útitónleika fyrir unglinga á föstudagskvöldinu sem lauk kl. 22:00 safnaðist mikill fjöldi unglinga saman í miðbænum og voru þar fram eftir nóttu. Lögreglan og útideild höfðu afskipti af nokkrum unglingum vegna útivistarbrots. Voru ungmennin ýmist sótt af foreldrum eða þeim ekið heim. Of mikið bar á ölvun meðal unglinganna og hafði lögreglan afskipti af nokkrum þeirra sem voru búin að neyta áfengis. Áfengi, bjór og landi var tekinn af nokkrum þeirra og einnig var nokkru hellt niður af áfengi. Einn maður gisti fangageymslu vegna ölvunar.

Laugardagurinn 6. september 2003
Lögreglan var með mikinn viðbúnað vegna Ljósanætur, setti upp stjórnstöð í miðbænum í nánum tengslum við Björgunarsveitina Suðurnes, sem setti upp Þjónustumiðstöð með fyrstuhjálparaðstöðu og móttöku fyrir týnd börn. Þar var útideild og Félagsþjónusta Reykjanesbæjar einnig með aðstöðu. Þegar mest var voru 14 lögreglumenn við störf í miðbænum. 3 lögreglumenn fóru um miðbæinn á reiðhjólum og kom sú löggæsla vel út og mæltist vel fyrir af hátíðargestum. Þá var Björgunarsveitin Suðurnes með mikinn fjölda manna í vinnu við öryggisgæslu á sjó og landi.
Mikið annríki var hjá lögreglu yfir daginn vegna umferðar og útkalla í tengslum við hátíðarhöldin. Nokkuð var um að fólk kvartaði yfir lokunum. Umferðastjórnun og lokanir gengu þó áfallalaust fyrir sig. Vegna anna hjá lögreglu í Keflavík var lögreglubifreið frá Hafnarfirði við eftirlit á Reykjanesbraut og í Grindavík.
Um klukkan 13:00 var tilkynnt um þjófnað úr verslun í Keflavík. Þar höfðu tveir tíu ára drengir freistast til að taka ófrjálsri hendi leikfangabíla. Haft var samband við foreldra en drengirnir voru fullir iðrunar.
Skömmu fyrir klukkan 15:00 féll fullorðin kona þegar hún steig á misfellu við Hafnargötu en við fallið fékk hún höfuðhögg. Var hún flutt með sjúkrabifreið af vettvangi en við nánari athugun reyndist hún lítið meidd.
Kl.15:33 kom tilkynning um atvik sem átti eftir að varpa dökkum skugga á annars vel heppnaða Ljósanótt. Vel þekktur og mikils metinn maður á besta aldri lét lífið á mjög sviplegan hátt. Eru bæjarbúar harmi slegnir vegna þessa atburðar.
Um klukkan 16:00 datt kona í tröppum inni í kvikmyndasal í Nýja bíói. Var hún flutt af vettvangi með sjúkrabifreið. Reyndist ekki alvarlegt og fékk hún að fara heim eftir skoðun.
Klukkan 18:15 var tilkynnt um tvær týndar stúlkur 14 ára og 17 ára. Vísbendingar bárust um að þær væru í húsi í Reykjavík sem reyndist eiga við rök að styðjast. Lögregla í Reykjavík sótti stúlkurnar og var þeim komið aftur til foreldra.
Kl. 21:36 var tilkynnt um árekstur á gatnamótum Hringbrautar og Aðalgötu. Ökumaður og farþegi annarrar bifreiðarinnar voru flutt með sjúkrabifreið á HSS en meiðsli þeirra reyndust vera minniháttar. Bifreiðarnar voru fjarlægðar með dráttarbifreið.
Kl. 22:20 var tilkynnt um slys við Hafnargötu 6. Þar hafði kona hrasað um misfellu í gangstétt og meiðst á hægra hné. Var hún flutt með sjúkrabifreið á HSS.
Kl. 00:30 var tilkynnt um aðila sem hafði veist að unglingum með hníf að vopni. Hafði hann síðan farið í burt í bifreið. Fannst aðili þessi ekki né bifreiðin.
Kl. 02:52 var tilkynnt um slagsmál á Kaktus í Grindavík. Annar aðilinn var með skurð á augabrún en ætlaði sjálfur að leita sér læknis.
Kl. 03:24 var tilkynnt um mann sem hafði dottið og slasast í Stapanum. Hafði maðurinn hlotið skurð á vinstri augabrún og var hann fluttur með sjúkrabifreið á HSS.
Lögreglumenn höfðu afskipti af fjölda ungmenna í miðbænum sem færð voru í öryggismiðstöð þar sem útideild og fjölskyldu- og félagsþjónusta var til húsa. Var það vegna brota á útivistarákvæðum og áfengisneyslu. Voru ungmennin sótt af foreldrum sínum eða ekið heim af starfsfólki útideildar. Talsvert var tekið af áfengi og "landa" og einnig einhverju hellt niður.
Einn aðili gisti fangageymslu en hann hafði verið tekinn ölvaður og æstur á heimili sínu.
Fjögur útköll voru þar sem kvartað var vegna hávaða í heimahúsum.
Einn aðili var kærður vegna hraðaksturs á Reykjanesbraut. Mældist hraði hans 128 km þar sem leyfður hraði er 90 km.
Sunnudagur 7. september 2003.
Rólegt var á næturvaktinni og bar ekkert sérstakt til tíðinda.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024