Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 25. janúar 2002 kl. 12:33

Ódýrasti skipaísinn seldur í Grindavík

Ódýrasti ís til skipa og báta er seldur í Grindavík. Þar er verðið 1700 krónur fyrir tonnið og þeir sem kaupa meira en 1000 tonn á ári fá magnafslátt og ísinn á 1500 krónur tonnið. Þetta kemur fram á fréttavef InterSeafood.com.Nokkur munur er á verði á ís eftir stöðum og getur munurinn verið verulegur. Fréttavefur InterSeafood.com kannaði verðið á nokkrum stöðum á svæðinu frá Snæfellsnesi, suður og austur um að Austfjörðum og reyndist ísinn í Grindavík vera ódýrastur. Verðið er annars sem hér segir:
Grundarfjörður 2350 krónur, Ólafsvík 2000 krónur, Reykjavík 3400 til 4000 krónur, Sandgerði 2200 krónur, Grindavík 1700 krónur, Þorlákshöfn 2180 krónur, Vestmannaeyjar 2200 krónur, Neskaupstaður 2500 krónur og Seyðisfjörður 2200 krónur.
Að sögn Hinriks Bragasonar hjá Ísfélagi Grindavíkur hf. þá helgast lágt verð í Grindavík af því að búið er að greiða verksmiðjuna upp og eigendurnir, sem flestir eru hagsmunaaðilar í sjávarútvegi í bænum, eiga hana skuldlausa. Ekki hefur þó verið talin ástæða til þess að rukka utanaðkomandi um hærra gjald.
Athygli vekur hátt verð á ís í Reykjavík en á því er einföld skýring. Þarna er um að ræða ís sem ekið er til Reykjavíkur með sérstökum ísbíl frá Þorlákshöfn. ET sér um flutninginn og mismunurinn á ísverðinu í Þorlákshöfn og útsöluverðinu í Reykjavík, þar sem ísnum er dælt beint um borð, liggur í flutningskostnaðnum. Guðmundur Gunnarsson hjá Ísfélagi Þorlákshafnar segir að þessi þjónusta hafi mælst ágætlega fyrir en vegna þess hve skipum hafi fækkað mikið hafi fyrirtækið þó ekki selt nema um 1200 tonn af ís til Reykjavíkur í fyrra. Grandi hf. framleiðir reyndar ís en hann fer aðallega til skipa fyrirtækisins þó þess munu vera einhver dæmi að utanaðkomandi útgerðir hafi fengið keyptan ís hjá fyrirtækinu.
Í Ólafsvík er hafður sá háttur á að skip sem eru í viðskiptum við fiskmarkaðinn hafa getað fengið eins mikinn ís og óskað er eftir. Ísinn er afgreiddur frá ísverksmiðju Breiða ehf. og greiða útgerðirnar fyrir ísinn með 43 aurum á hvert landað kíló af fiski sem fer um fiskmarkaðinn. Gunnar Bergmann Traustason hjá FMB segir þetta fyrirkomulag hvetja til þess að menn ísi vel og fyrir vikið fæst betra hráefni til sölu. Ef skip landa ekki hjá markaðnum þá geta þau keypt beint af Breiða ehf. og kostar ísinn þá 2000 krónur hvert tonn. Sjá nánar á InterSeafood.com.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024