Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ódýrast í sund í Reykjanesbæ
Laugardagur 11. júlí 2009 kl. 09:35

Ódýrast í sund í Reykjanesbæ


Hvergi á landinu er ódýrara í sund en í Reykjanesbæ, samkvæmt nýlegri könnun sem DV stóð að. Verðmunur á sundlaugaferð fyrir fimm manna fjölskyldu getur numið allt að 138 prósentum eftir því hvar farið er í sund. Kannað var verðlag á 22 sundstöðum á landnu. Í Grindavík er næst ódýrast að fara í sund.

Stakt gjald í sund fyrir fullorðinn einstakling kostar á bilinu 230 til 450 krónur víðs vegar um landið. Sums staðar er frítt fyrir börn á grunnskólaaldri en algengast er að börn eldri en 5 ára greiði um það bil hálft gjald fyrir staka ferð í sund, yfirleitt á bilinu 100 til 170 krónur. DV kannaði verð í helstu sundlaugum landsins og reiknaði út hvað fimm manna fjölskylda þarf að greiða til að fara í sund. Fjölskyldan samanstendur af tveimur fullorðnum og þremur börnum. Börnin eru 5, 8 og 15 ára gömul í því dæmi sem DV leggur upp. Algengast er að fjölskyldan greiði á bilinu 700 til 1.000 krónur fyrir ferðina en taka ber fram að þjónusta og gæði sundlauga eru auðvitað misjöfn.

Vatnaveröldin í Reykjanesbæ ber af í verði af þeim sundlaugum sem kannaðar voru. Þar hefur verið frítt fyrir börn á grunnskólaaldri frá ársbyrjun 2006 en fullorðnir greiða aðeins 250 krónur fyrir aðgang að garðinum. Fimm manna fjölskyldan greiðir þar aðeins 500 krónur fyrir sundferðina. Næstódýrasti sundstaðurinn, sem til athugunar var, er í Grindavík. Þar borga fullorðnir 300 krónur en börn á grunnskólaaldri fá frítt.

Samkvæmt könnuninni er dýrast fyrir áðurnefnda fimm manna fjölskyldu að fara í sund á Eskifirði. Ferðin kostar 1.190 krónur. Fullorðnir greiða 340, sem er í meðallagi, en börn 5 til 15 ára greiða 170 krónur.
---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VFmynd/elg.