Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Oddvitarnir í RNB svara: Kristinn Þór
Kristinn Þór Jakobsson oddviti Framsóknar.
Laugardagur 24. maí 2014 kl. 08:00

Oddvitarnir í RNB svara: Kristinn Þór

Hver eru þrjú helstu málefni sem ykkar flokkur leggur áherslu á fyrir þessar kosningar?
Það er auðvitað að koma atvinnumálunum í gang. Með því að koma þeim í gang þá fáum við þessa velferð sem við öll viljum. Húsnæðismálin, það er í bígerð lagagerð á Alþingi varðandi húsnæðismál þar sem sveitarfélögin geta gengið inn í. Svo eru það umhverfis- og skipulagsmál. Við viljum gera sorpeyðinguna ódýrari með því að flokka betur sorpið. Hún er sú dýrasta á landinu hér í dag.

Fjármálin hafa verið mikið í umræðunni, hvað hyggist þið gera í þeim?
Við þurfum að leysa til okkar allar eignir innan Eignarhaldsfélagsins Fasteignar og fá betri vaxtakjör. Það eru óhagstæðir vextir sem hvíla á þeim lánum, það bjóðast mun betri vextir á markaði í dag. Við viljum koma þessum atvinnumálum í Helguvík í gagnið, þá leysum við úr ábyrgðum og kvöðum sem hvíla á bænum vegna hafnarinnar. Við höfum fundið holu í aðfangakeðju Reykjanesbæjar þar sem við getum sparað alla vega 40-60 milljónir á ári, með mjög góðri fjárfestingu.

Atvinnumálin hafa verið fyrirferðamikil, hver er ykkar stefna þar?
Eins og ég hef sagt þá er það að koma Helguvík í gagnið. Við verðum að nýta okkur tækifæri á Suðurnesjum, þar sem er alþjóðlegur flugvöllur og fengsæl fiskimið í nágrenninu. Við þurfum að koma upp öflugri fiskvinnslu og við höfum sett af stað hugmynd um fiskiþorp og tengingu við ferðaþjónustuna þar sem hugsanlega gæti verið vaxtarbroddur. Síðan er Geopark ómæld stærð í ferðaþjónustu. Það eru síaukin tækifæri fyrir Suðurnesin að blómstra í ferðaþjónustu og atvinnumálum.

Hvað um bæjarstjóramálin?
Flokkarnir hafa verið að rugla saman bæjarstjórakosningum og bæjarstjórnarkosningum. Við erum í bæjarstjórnarkosningum. Við göngum óbundin til kosninga. Við viljum ráða bæjarstjóra á faglegum grunni og standa vel að því.

Hver er ykkar skoðun á íbúalýðræði?
Framsókn í Reykjanesbæ var frumkvöðull að ungmennaráðinu. Við styðjum t.d. stofnun öldungaráðs. Við viljum að íbúalýðræði verði virkt í gegnum hverfaráð, þar sem haldnir eru 1-2 fundir á ári í hverfunum þar sem farið er yfir verkefni og fjárhagsáætlun. Við viljum hætta þessu eintali á íbúafundum, við viljum fara í alvöru íbúalýðræði.

Hvernig hefur kosningabaráttan gengið?
Við höfum sett saman alveg einstaklega öflugan hóp. Svokallaðan fléttulista, þann fyrsta og eina í 20 ára sögu Reykjanesbæjar, og þó víðar væri leitað. Við höfum öfluga málefnaskrá sem við höfum unnið í samvinnu við íbúa og hópinn líka. Við viljum meiri og betri Reykjanesbæ fyrir okkur öll.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024