Oddvitarnir í RNB svara: Guðbrandur
Hver eru þrjú helstu málefni sem ykkar flokkur leggur áherslu á fyrir þessar kosningar?
Við teljum að þessar kosningar eigi að snúast um nýja forgangsröðun, þar sem við setjum fólk í forgang. Við teljum eðlilegt að við opnum stjórnsýsluna frekar og aukum samráð við íbúana. Síðast en ekki síst þá teljum við nauðsynlegt að efla fjárhagslegar undirstöður, sem eru hverju sveitarfélagi nauðsynlegar. Það eru þau mál sem ég held að þessar kosningar ættu að snúast um.
Fjármálin hafa verið mikið í umræðunni, hvað hyggist þið gera í þeim?
Þau hafa verið í umræðunni svo árum skiptir. Ég held að það sé komið að þeim tímapunkti að við förum vandlega yfir fjármálin. Köllum til liðs við okkur sérfræðinga til þess að kafa í málin. Við erum búin að vera inni á borði eftirlitsnefndar í mörg ár og það er einhver ástæða fyrir því. Við þurfum að leita að þeirri ástæðu og lagfæra skekkju í rekstrinum. Ég held að þetta sé nauðsynleg byrjun og við verðum svo að móta okkar afstöðu í framhaldi af því.
Atvinnumálin hafa verið fyrirferðamikil, hver er ykkar stefna þar?
Við teljum algjörlega nauðsynlegt að sú fjárfesting sem menn hafa lagt í atvinnumál á Suðurnesjum og í Reykjanesbæ skili sér með einhverjum hætti. Það gengur ekki að vera bara með auðar lóðir, við teljum brýnt að þær fjárfestingar skili sér til baka. Við erum samt ekki ginkeypt fyrir því að við verðum með eitt álver og tvær kísilverksmiðjur og jafnvel eitthvað annað sem getur haft veruleg áhrif á umhverfi okkar. Við teljum brýnt að þegar svæðið er full skipulagt, verði hægt að leggja mat á það út frá þeim viðmiðum sem sett eru hvað varðar umhverfið okkar. Við viljum byggja þetta upp í samráði við þau umhverfissjónarmið sem verða að vera svo okkur sem íbúum geti liðið vel hérna á svæðinu.
Hvað um bæjarstjóramálin?
Staðan er skýr. Við ætlum að auglýsa eftir bæjarstjóra. Við teljum nauðsynlegt að það verði ráðinn hér inn ópólitískur bæjarstjóri sem verði þá bæjarstjóri allrar bæjarstjórnar, ekki bara meirihlutans. Það finnst okkur eðlilegt í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er núna. Til þess að vinna úr bráðnauðsynlegum málum eins og að koma böndum á fjármálin. Þess vegna verður það skýr krafa frá okkur að ráðinn verði inn ópólitískur bæjarstjóri.
Hver er ykkar skoðun á íbúalýðræði?
Hún birtist m.a. í þessu framboði okkar. Við teljum eðlilegt að íbúar hafi meira um það að segja hvað fer fram í þessu bæjarfélagi. Á þessum tímum þar sem fólk hefur aðgang að upplýsingum, þá þýðir ekkert að hafa bara samráð við fólk á fjögurra ára fresti. Við verðum að auka samráð við íbúa eins vel og við getum. Við höfum séð mörg dæmi um það á undanförnum árum að við höfum verið að taka afdrifaríkar ákvarðanir í þessu sveitarfélagi án samráðs við íbúa. Vil ég þar nefna sem dæmi söluna á Hitaveitu Suðurnesja á sínum tíma. Það hefði verið gott ef íbúar hefðu verið á bak við slíka ákvörðun. Þannig viljum við haga okkur í framhaldinu og ég tel rétt að hverjir sem taka við stjórnvölnum hér beiti sér fyrir því að hafa samráð við íbúa í stærri málum. Eins má hafa samráð við íbúa með ýmsum hætti. Reykjanesbær er að vinna gott verk, t.d. með þessum íbúavef sínum. Menn eru farnir af stað en við þurfum að ná lengra.
Hvernig hefur kosningabaráttan gengið?
Þetta hefur gengið vel en hópurinn hóf undirbúning í febrúar. Það hefur skilað okkur hingað. Við erum komin með kosningaskrifstofu og vorum að dreifa bæklingi sem mun hjálpa okkur að tengja framboðið við fólkið á listanum. Við erum í þeirri stöðu að við erum ekki eins vel kynnt og önnur framboð. Þessi hefðbundnu flokkaframboð hafa áralanga kynningu, sem við þurfum að vinna fyrir. Eins er komið fram klofningsframboð sem fékk mikla fjölmiðlaumfjöllun. Mér sýnist þó að fólk sé að átta sig á því hver við erum og fyrir hvað við stöndum. Þeir sem vilja breytingar halla sér að Beinni leið, því erum við að vonast eftir. Ég er alltaf bjartsýnn.