Oddvitarnir í RNB svara: Friðjón
Hver eru þrjú helstu málefni sem ykkar flokkur leggur áherslu á fyrir þessar kosningar?
Það er endurskoðun stjórnsýslunnar og rekstrarins. Skuldaaðlögun, húsnæðismál og atvinnumál.
Fjármálin hafa verið mikið í umræðunni, hvað hyggist þið gera í þeim?
Reksturinn hefur verið mjög slæmur í mörg ár, því miður. Tekjur hafa ekki dugað fyrir gjöldum. Það fyrsta sem við munum gera er að taka út reksturinn. Við þurfum að fjármagna rekstur bæjarins til langs tíma. Það er eina leiðin svo við getum fjárfest til framtíðar. Fyrsta skref okkar er að gera nýja skuldaaðlögun til 10 ára og endurfjármagna öll lán bæjarsjóðs.
Atvinnumálin hafa verið fyrirferðamikil, hver er ykkar stefna þar?
Við erum búin að bíða í mörg ár eftir stórum lausnum. Við styðjum uppbyggingu í Helguvík, án vafa. Það þarf að vanda vel til verka hvað það varðar. Við ætlum ekki að vera með einhver loforð um eitthvað stórt sem ekki er hægt að standa við. Vöxturinn í samfélaginu byggist á litlu fyrirtækjunum og við munum styðja þau. Fyrst og fremst viljum við efla ferðaþjónustuna og setja skýr markmið þar. Við viljum efla sjávarútveg og aðstöðu fyrir sjávarútveg hérna í Reykjanesbæ, en það hefur lítið verið rætt.
Hvað um bæjarstjóramálin?
Á fjögurra ára fresti þá ræður bæjarstjórn bæjarstjóra. Ef við komumst í meirihluta eftir þessar kosningar þá munum við ráða bæjarstjóra, við munum gera það vel og vanda til verksins. Ég er fullviss um það að sátt verði um þá ráðningu. Það eru þó engin sérstök bæjarstjóraefni hjá okkur. Við munum vanda valið, staðan verður auglýst og við stöndum vel að þessu.
Hver er ykkar skoðun á íbúalýðræði?
Við höfum alltaf haft trú á samráði við íbúa og við höfum haft forystu allt kjörtímabilið um aukið samráð við íbúa. Það er okkar stefna og við höfum þurft að berjast harkalega fyrir henni. Við munum örugglega skjóta stórum málum til íbúanna á næsta kjörtímabili. Við höfum trú á því að samfélag okkar batni með auknu lýðræði.
Hvernig hefur kosningabaráttan gengið?
Hún hefur gengið mjög vel. Við erum með mjög nýjan lista með mikið af ungu fólki, hressum og kátum körlum og konum. Við höfum sterka siðferðiskennd og viljum vera heiðarleg og koma rétt fram, ég tel okkur hafa gert það. Ég hræðist dálítið það sem gerist á netinu. Það hefur verið frekar sorglegt að lesa ummæli um menn en ekki málefni að undanförnu. Við skömmumst okkar fyrir það og ætlum okkur ekki að taka þátt í því. Það eina sem við ætlum að gera er að hafa gaman af þessu.