Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Oddvitarnir í RNB svara: Árni
Árni SIgfússon, oddviti Sjálfstæðisflokks.
Laugardagur 24. maí 2014 kl. 08:00

Oddvitarnir í RNB svara: Árni

Hver eru þrjú helstu málefni sem ykkar flokkur leggur áherslu á fyrir þessar kosningar?
Mig langar til þess að íbúar íhugi hvaðan við komum. Hvernig var staðan fyrir 10 árum? Hvernig var hún í umhverfismálum, menntamálum, hvað með atvinnumálin, voru hér einhver pláss fyrir aldraða? Hver er staða heilsugæslunnar? Við viljum styrkja heilsugæsluna og tryggja að íbúar þurfi ekki að bíða í daga eða vikur eftir því að fá heilsugæslu, því það er óþolandi. Við viljum styrkja Hafnargötuna með betri bæjarstemningu og byggja á þessari reynslu sem við höfum.

Fjármálin hafa verið mikið í umræðunni, hvað hyggist þið gera í þeim?
Oft tala menn um það að eignir bæjarins séu allar seldar en við erum enn í dag það sveitarfélag sem á mestar eignir. Við erum með miklar skuldir en þær ætlum við að greiða niður á sex árum, það getum við gert en það er vel innan þeirra marka sem okkur eru sett. Fyrst og fremst ætlum við að gera það án þess að auka skatta. Við getum einnig haldið uppi góðri þjónustu án þess að auka gjöld á íbúa.

Atvinnumálin hafa verið fyrirferðamikil, hver er ykkar stefna þar?
Ég held við getum notað orðið fjölbreytni. Við erum búin að vera að vinna að því að byggja upp atvinnulífið eftir að stærsti vinnuveitandi okkar fór. Auðlindagarðurinn úti á Reykjanesi og sömuleiðis fiskeldið þar, einnig heilsuvöruverksmiðja sem er þar. Auk þess má nefna gagnaverin og Keilir og hans uppbygging. Svo eru það öll stóru verkefnin í Helguvík. Það er fjölbreytni en við þurfum vel launuð störf fyrir almenning. Við erum ekki að byggja bara upp einhver störf fyrir nokkra stóra atvinnurekendur.

Hvað um bæjarstjóramálin?
Ég er reiðubúinn að vinna áfram sem bæjarstjóri hér. Ég er þakklátur fyrir þann stuðning sem ég fæ. Ég er ánægður með það að uppbygging okkar í framtíðarsýn og markvissri vinnu, hún fær stjórnsýsluverðlaun fyrir fagleg vinnubrögð. Ég er afar sáttur með það.

Hver er ykkar skoðun á íbúalýðræði?
Ég held að fólk þekki það sem við höfum verið að gera inni á heimasíðu bæjarins. Þar bjóðum við fólki að taka þátt í ákvörðunum og þar má sjá hvernig við erum að auka íbúalýðræði. Þar erum við með hugmyndir okkar og höfum lagt fram tillögur og samþykkt tillögur. Við erum með tillögur sem miða að því að fólk geti kosið frekar. Núna erum við með skemmtilegar tillögur er varða grunnskólana þar sem taka má þátt í rafrænum kosningum um matarmálin. Við erum mjög hlynnt því og teljum að framtíðin séu rafrænar kosningar um mjög marga skemmtilega hluti.

Hvernig hefur kosningabaráttan gengið?
Mér finnst alltaf gott að hafa góða fótfestu í botninum. Við finnum mikinn stíganda og erum spennt fyrir framhaldinu. Óneitanlega held ég að það sé mjög sérstakt ástand hérna hjá okkur sjálfstæðismönnum. Við erum búin að byggja upp á svo mörgum sviðum og ná svo miklum árangri. Við erum í innsiglingunni og með ríkisstjórn sem er að vinna með okkur núna. Hvað gerist, þá rofnar samstaðan. Það er í gegnum prófkjör sem haldið er þar sem Gunnar Þórarinsson býður sig fram í 1. sæti en fellur í 5. sæti. Hann nær ekki bindandi kosningu og er boðið að taka 6. sætið sem er baráttusætið okkar, en hann hafnar því og fer í nýtt framboð. Það er auðvitað mjög sérstök staða og ég bið íbúa að hugleiða það. Nú er þó stefnan bara upp og áfram.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024